Tollar á ýmsum matvörum frá ríkjum ESB lækka þann 1. maí næstkomandi en þá tekur gildi tvíhliða tollasamningur Íslands og ESB sem gerður var haustið 2015.

Tollar af t.d. súkkulaðivörum, ýmsu kexi og brauði, pitsum og bökum, fylltu pasta og bollasúpum munu því falla niður. Á vef Félags atvinnurekenda segir að oftast sé um magntolla að ræða þ.e. fasta krónutölu sem leggst á hvert kíló viðkomandi vöru. Þeir tollar geti numið allt frá 5 krónum kílóið og upp í 110 krónur kílóið.

Þá lækka einnig einhverjir verðtollar, sem leggjast sem prósenta ofan á verð vöru. Mesta breytingin er þar á tolli á franskar kartöflur sem fer úr 76% í 46%. Þá lækkar tollur á ís og sorbet úr 30% í 18%.

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, segir að þess megi vænta að tollabreytingarnar lækki verð á viðkomandi vörum, þótt verðlækkunin verði í ýmsum tilvikum ekki mikil. Lækkun um 30 prósentustig á tolli á franskar kartöflur ætti þó til dæmis að skila sér í talsverðri verðlækkun, eða upp á allt að fimmtungi útsöluverðs.