Tollar á allar unnar landbúnaðarvörur nema jógúrt verða felldir niður og tollar á ýmsar óunnar landbúnaðarvörur verða felldir niður eða lækkaðir. Má þar nefna villibráð, franskar kartöflur og útiræktað grænmeti. Þetta kemur fram á RÚV .

Niðurfellingarnar koma vegna samninga sem Ísland gerði við Evrópusambandið um gagnkvæma niðurfellingu tolla, en ljóst er að hún gæti haft mikil áhrif á markaðinn og aukið framboð á ýmsum vörum til muna.

Samkomulagið náðist á tveggja daga fundi sem haldinn var í Reykjavík, en markmið samninganna er að stuðla að auknu vöruúrvali og lægra vöruverði hérlendis, er fram kemur í frétt á vef atvinnuvegaráðuneytisins.

Alls verða felldir niður tollar á 340 tollskrárnúmerum og má þar nefna súkkulaði, pítsur, pastabökunarvörur og fleira. Þá verða lækkaðir tollar á yfir 20 öðrum tollskrárnúmerum. Þá munu bæði Ísland og Evrópusambandið auka verulega tollfrjálsa innflutningskvóta, fyrir m.a ýmsar kjöttegundir og osta.

Samningarnir eiga að taka gildi í árslok 2016 eða byrjun árs 2017, að því gefnu að viðeigandi stofnanir hjá ESB og Íslandi staðfesti samningana.