Bráðabirgðayfirlit Seðlabanka Íslands um greiðslujöfnuð við útlönd og stöðu þjóðarbúsins sýna bestu tölur þjóðarbúsins frá upphafi mælinga á og við lok þriðja ársfjórðungs ársins.

Mældist Viðskiptajöfnuðurinn hagstæður um 100,4 milljarða króna á ársfjórðungnum en þetta er í fyrsta sinn sem hann fer yfir 100 milljarða króna á einum fjórðungi og besta staða frá upphafi mælinga Seðlabankans.

Þjónustujöfnuður hagstæður um 122 milljarða

Ársfjórðunginn á undan mældist hann 32,5 milljarðar króna. Á þriðja ársfjórðungnum var vöruskiptajöfnuðurinn óhagstæður sem nam 22,5 milljörðum króna meðan þjónustujöfnuðurinn mældist hagstæður um 121,6 milljarðar króna.

Auk þess reyndist jöfnuður frumþáttatekna vera hagstæður um 6,1 milljarða króna en rekstrarframlögin voru óhagstæð um 4,8 milljarða króna.

Staða jákvæð í fyrsta sinn frá upphafi mælinga

Námu erlendar eignir þjóðarbúsins umfram skuldir 60 milljörðum króna, sem er í fyrsta sinn frá upphafi mælinga sem hrein staða þjóðarbúsins mælist jákvæð.

Erlendu eignir þess voru að andvirði 4.040 milljarðar króna meðan skuldir þess nema 3.980 milljörðum króna, en mismunurinn er um 2,6% af vergri landsframleiðslu.

Lækkuðu nettóskuldir þjóðarbúsins um 30 milljarða króna, eða sem nemur 1,3% milli ársfjórðunga. Hækkuðu erlendar eignir um 140 milljarða króna og skuldir um 11 milljarða vegna fjármagnsviðskipta.

Neikvæð áhrif á erlenda stöðu þjóðarbúsins af gengis- og verðbreytingum námu 83 milljörðum króna.