*

föstudagur, 20. október 2017
Innlent 12. september 2012 16:04

Töluverð aukning í fjölda leigusamninga

Fjöldi leigusamninga hefur stóraukist með haustinu en þeir eru þó mun færri en í fyrra á öllu landinu.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Alls var 616 leigusamningum þinglýst á höfuðborgarsvæðinu í ágúst sl., sem er um 15% fjölgun samninga á milli mánaða. Leigusamningum á höfuðborgarsvæðinu hefur þó fækkað um rúm 17% á milli ára.

Þá var 1.129 leigusamningum þinglýst á landinu öllu í ágúst sem þýðir fjölgun samninga um tæp 46% á milli mánaða samkvæmt tölum frá Þjóðskrá Íslands. Samningum á landinu öllu hefur þó fækkað um rúm 13% á milli ára.

Á myndinni hér að neðan sést þróun á fjölda leigusamninga á höfuðborgarsvæðinu sl. 3 ár. Þar sést hvernig þinglýstum leigusamningum hefur fækkað nokkuð frá því að fjöldi þeirra náði hámarki haustið 2010. Fjöldinn tók kipp upp á við sl. haust en hefur síðan þá fækkað nokkuð. Þá má einnig sjá að fjöldi leigusamninga hefur tekið kipp upp á við á þessum tíma árs og fram á haustið.

Fyrir utan höfuðborgarsvæðið var flestum samningum þinglýst á Norðurlandi eða 201 samningi. Þá var 147 samningum þinglýst á Suðurnesjum, 78 samningum þinglýst á Vesturlandi og 67 samningum á Suðurlandi.

Loks var 13 samningum þinglýst á Austurlandi og 7 samningum á Vestfjörðum.

Á síðasta ári var um 9.950 samningum þinglýst á landinu öllu, samanborið við tæplega 10.00 samninga árið 2010. Þar af var um 6.350 samningum þinglýst á höfuðborgarsvæðinu, samanborið við um 6.850 samninga árið 2010. Það sem af er þessu ári hefur rúmlega 5.900 samningum verið þinglýst á landinu öllu, þar af um 3.800 samningum á höfuðborgarsvæðinu.