Ársskýrsla Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) 2015, fyrir skólaárið 2014-2015, hefur verið birt á heimasíðu LÍN . Í skýrslunni kemur fram að staða útlánasafns sjóðsins hafi í lok árs verið 223,5 milljarðar króna og er um 4,9% aukningu að ræða á milli ára.

Bókfært virði útlánanna var hins vegar 180,9 milljarðar og núvirði 140,8 milljarðar, eða 63% af nafnvirði lánasafnsins. Munurinn á bókfærðu virði útlána og núvirtri stöðu lánasafnsins í lok árs 2015 endurspeglar þann viðbótarkostnað sem fylgir því að LÍN lánar til námsmanna á lægri vöxtum en sjóðurinn sjálfur fjármagnar sig á.

65% styrkja fara til 20% lántakenda

Í ársskýrslunni kemur fram að 65% af heildarstyrkjum námslánakerfisins fari til þeirra 20% lántakenda sem hæstu lánin taka. Innan við 1% heildarstyrkja LÍN fara til þeirra sem taka 20% lægstu lánin. Þannig myndast hvati til að taka sem hæst lán þar sem líkurnar á að þau verði borguð til baka minnka umtalsvert.

Vanskil hafa hækkað töluvert milli ára og er stór hluti þeirra eldri en eitt ár og töluverður hluti eldri en 3 ár. Nafnverð lána þar sem vanskil eru einhver, eru um 8,7 milljarðar króna og hækkuðu vanskilin um 1,2 milljarða frá árinu 2014. Af 8,7 milljörðum tengdust 5,4 milljarðar vanskilum sem eru eldri en 12 mánaða. Verulegur munur er á vanskilum eftir búsetu. Þannig eru vanskil þeirra sem búa erlendis mun hærri en þeirra sem búa á Íslandi. Skýring á því er meðal annars að mun erfiðara og kostnaðarsamara er fyrir sjóðinn að innheimta vanskil erlendis. Það eru einkum lánþegar sem búa í Bandaríkjunum og Kanada sem standa verr í skilum.

Skýrsluna má lesa í heild sinni með því að smella hér .