Ég er dálítill sveitastrákur inn við beinið,“ segir Ágúst Fannar Einþórsson, sem aldrei er kallaður annað en Gústi, þegar við hittum hann í bakaríinu við Fákafen, en Brauð og Co deilir þar húsnæði með Gló. „Ég var ekki skólatýpan – ég get ekki lesið enn þann dag í dag – og hef aldrei lesið neitt, bara eina bók á allri minni ævi. Ekki einu sinni bakarabók. Ég var í rauninni búinn að telja mér trú um að ég gæti ekki lært. Þess vegna fór ég ekki í menntaskóla,“ segir Gústi.

„Ég ætlaði alltaf að vera kokkur en er nokkuð feginn að ég endaði ekki þar. Mín upplifun úr eldhúsum er rosalega mikið þessi Gordon Ramsay týpa. Í starfskynningu í grunnskóla vissi ég að ég fengi kleinuhring í lok vaktar í bakaríinu. Þess vegna valdi ég bakaríið.“ Þessi kleinuhringur hefur því undið dálítið upp á sig. Eftir viðkomu í ýmsum störfum skráði Gústi sig í hússtjórnarskólann á Hallormsstað. „Það átti að vera grunnur fyrir kokkanámið. En þar þurfti ég líka að læra að sauma út og vefa.“

Hvernig gekk það?

„Það gekk mjög illa. Ég fer þangað því mig langaði að læra að elda og var pirraður á að þurfa að gera eitthvað annað. Ég átti til dæmis að vefa teppi sem endaði sem barnateppi því ég sneri því bara á hliðina,“ segir Gústi og hlær. „En ég lærði aðeins að elda. En aðallega mikið af grunnatriðum i daglegu lífi eins og að setja i þvottavél. Þegar ég var búinn með þetta fór ég bara á samning sem bakari á Egilsstöðum.“

Rétt eftir aldamótin flytur hann svo til Reykjavíkur þar sem hann vinnur sem bakari á nóttunni með skóla. „Eins eðlilegt og það nú er. Þá mætti ég klukkan þrjú eða fjögur um nótt á lítið bakarí á Suðurlandsbraut sem hét Café Konditori Copenhagen. Það var rosalega flott bakarí. Það var metnaður þar en þá hafði ekki orðið sú vakning í brauðbakstri og hefur orðið í dag. Þar fer ég að sjá nýja hluti – sjá almennileg hráefni og smakkaði alvöru súkkulaði í fyrsta skipti. En ég var ungur, mætti lítið í skólann og var annaðhvort þreyttur eða þunnur þegar ég gerði það. Áhuginn var á því að vinna og dansa.“

Hélt að heimurinn snerist um sig Gústi var auk þess „alveg brjálaður“ út í kerfið, því hann mátti ekki vera á nemasamningi við Café Konditori þar sem þar var engan menntaðan bakarameistara að finna.

„Ég verð frekar pirraður þegar ég fæ ekki að fara mína leið – ég hélt svolítið að heimurinn snerist í kringum mig og áttaði mig ekki á því að það hjálpaði ekkert að vera brjálaður. Ég vildi vinna þarna því ég vildi ekki fara aftur í að standa fyrir framan brauðvél og taka á móti brauðum og setja þau í form – setja deig í eitthvert síló og svo kemur brauð út hinum megin. Ég vildi frekar læra handverk því ég var búinn að átta mig á virðinu í því. Síðan klúðraði ég auðvitað skólanum en leysti það með því að hætta í bakaranámi og læra að verða konditor í staðinn. Það var frábær ákvörðun.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .