Fimmta árið í röð mun japanska flugfélagið JAL bjóða upp á stakar ferðir til Íslands frá Tókýó og Osaka nú í september. Í fyrstu ferðinni munu vélarnar fljúga til Íslands frá Japan með farþega en snúa svo við tómar. Þeir koma síðan aftur til landsins án nokkurra farþega til að sækja japönsku ferðamennina viku síðar. Túristi.is fjallar um málið.

Að sögn Túrista hafa forsvarsmenn JAL undanfarin tvö ár reynt að koma sætunum í sölu hér á landi til að þurfa ekki að fljúga tómum vélum frá Íslandi til Japan og öfugt. Flugtíminn er á bilinu 11 til 12 tímar.

Í svari við fyrirspurn Túrista segir sölustjóri JAL hins vegar að viðræður japanska félagsins við íslenska ferðaskipuleggjendur hafi ekki skilað árangri. Þá hefur jafnframt komið fram að Japansferðir til Íslands verði tvær í ár en ekki fjórar líkt og í fyrra.

Beint flug á milli Íslands og Japan hefur til þessa takmarkast við þessar stöku haustferðir JAL og er engin loftferðasamningur í gildi á milli landanna tveggja. Að sögn Lilju Alfreðsdóttur, utanríkisráðherra, virðast japönsk stjórnvöld ekki meta stöðuna þannig að næg eftirspurn sé í Japan eftir gerð loftferðasamninga, þrátt fyrir að fjöldi japanskra farþega til Íslands hafi fjölgað úr 3.000 árið 2002 í 17.000 árið 2015.