Framboð til stjórnar í Íslandsbanka liggja fyrir en aðalfundur bankans fer fram á fimmtudaginn. Íslandsbanki er að fullu í eigu íslenska ríkisins og samkvæmt tilnefningu Bankasýslu ríkisins, mun Tómas Már Sigurðsson, framkvæmdastjóri stefnumótunartengsla hjá Alcoa í Pittsburg í Bandaríkjunum, taka sæti í stjórn bankans. Kemur hann í stjórnina fyrir Helgu Valfells, stofnanda Crowberry Captial og fyrrverandi framkvæmdastjóra Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins, sem hættir.

Tómas Már er fæddur árið 1968 og hefur ekki áður setið í stjórn bankans. Eins og áður sagði er hann framkvæmdastjóri stefnumótunartengsla hjá Alcoa í Bandaríkjunum en áður gegndi hann starfi forstjóra Alcoa Fjarðaáls og Alcoa á Íslandi, en fluttist í ársbyrjun 2012 til Genfar til að stýra Alcoa í Evrópu.

Tómas Már var formaður Viðskiptaráðs Íslands frá 2009-2012 og sat í stjórn Samtaka iðnaðarins frá 2005-2011. Hann sat í framkvæmdastjórn Evrópska Álfélagsins /sambandsins, Eurometaux , og Bandaríska viðskiptaráðs Evrópusambandsins frá 2012-2014.  Tómas er með BA gráðu í bygginga- og umhverfisverkfræði og mastersgráðu í skipulagsfræði frá Cornell Háskóla í Bandaríkjunum árið 1995.

Aðrir sem Bankasýslan tilnefnir í stjórn eru:

Friðrik Sophusson er fæddur árið 1943 og hefur verið stjórnarformaður Íslandsbanka frá janúar 2010. Friðrik hefur víðtæka reynslu og þekkingu á sviði stefnumörkunar í efnahagsmálum, stjórnun og opinberri þjónustu á Íslandi. Hann hefur gegnt fjölmörgum trúnaðarstörfum fyrir fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök sem og sinnt stjórnarsetu. Friðrik var framkvæmdastjóri Stjórnunarfélags Íslands 1972-1978 þegar hann tók sæti á Alþingi. Friðrik átti sæti í ríkisstjórn 1987-1988, þá sem iðnaðar- og orkumálaráðherra og síðar sem fjármálaráðherra 1991-1998. Árið 1999 tók Friðrik við starfi forstjóra Landsvirkjunar sem hann gegndi í tæp 11 ár. Hann er jafnframt stjórnarformaður Hlíðarenda ses. Friðrik er með embættispróf frá lagadeild Háskóla Íslands.

Anna Þórðardóttir er fædd árið 1960 og hefur verið stjórnarmaður frá apríl 2016. Hún hefur mikla reynslu af stjórnarsetu. Hún hefur setið í stjórn KPMG og í félagi löggiltra endurskoðenda. Hún situr í stjórn Framtíðarseturs Íslands, Heimavalla og er formaður endurskoðunarnefndar Haga. Anna starfaði hjá KPMG á árunum 1988-2015, þar af sem eigandi frá 1999 og bar m.a. ábyrgð á endurskoðun hjá eftirfarandi félögum: Reitum, Högum, 365, Baugi Group, Vodafone, Landfestum, Landey, 10-11 og Félagsbústöðum. Anna er löggiltur endurskoðandi og er með Cand.oecon. gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands. Hún stundaði Cand.merc. nám í fjármálafræðum við Handelshøjskolen í Århus.

Auður Finnbogadóttir er fædd árið 1967 og hefur verið stjórnarmaður frá apríl 2016. Hún hefur víðtæka reynslu af störfum á fjármálamarkaði. Hún hefur meðal annars starfað sem framkvæmdastjóri Lífsverks lífeyrissjóðs, Lífeyrissjóðs starfsmanna Kópavogsbæjar og MP banka. Auður hefur verið stjórnarformaður Samkeppniseftirlitsins og Norðlenska. Hún hefur meðal annars setið í stjórn Framtakssjóðs Íslands, Icelandair Group, RÚV, Landsnets og Nýja Kaupþings banka. Auður er virkur varamaður í kærunefnd útboðsmála og starfar sem verkefnastjóri stefnumótunar hjá Kópavogsbæ. Auður er með B.Sc. í viðskiptafræði með áherslu á alþjóðleg viðskipti frá Háskólanum í Colorado, Boulder í Bandaríkjunum og MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík. Hún lauk diplómanámi í opinberri stjórnsýslu frá Háskóla Íslands vorið 2018 og hefur lokið prófi í verðbréfaviðskiptum.

Árni Stefánsson er fæddur árið 1966 og hefur verið stjórnarmaður frá apríl 2016. Hann hefur víðtæka stjórnunarreynslu tengdri stóriðju á Íslandi. Hann starfar sem framkvæmdastjóri, og situr í framkvæmdastjórn hjá Rio Tinto. Árni hefur áður starfað sem framkvæmdastjóri hjá Norðuráli Grundartanga, deildarstjóri hjá Landsneti og yfirmaður netrekstrar hjá Landsvirkjun. Árni er með M.Sc. gráðu í rafmagns- og rekstrarverkfræði og B.sc. gráðu í rafmagnsverkfræði frá Álaborgarháskóla í Danmörku.

Hallgrímur Snorrason er fæddur árið 1947 hefur verið stjórnarmaður frá apríl 2016. Hann starfar sjálfstætt sem ráðgjafi í opinberri hagskýrslugerð. Hann gegndi starfi Hagstofustjóra 1985-2007 og var aðstoðarforstjóri Þjóðhagsstofnunar 1980-1984. Hann hefur setið í fjölda stjórna, m.a. bankaráði Útvegsbanka Íslands hf., Skýrr og Auðar Capital. Hann hefur jafnframt verið formaður ýmissa stjórnskipaðra nefnda, bæði innlendra sem og nefnda tengdum norrænu samstarfi, EFTA, ESB og OECD. Hallgrímur er með M.Sc. gráðu í hagfræði frá Háskólanum í Lundi og B.Sc. gráðu í hagfræði frá Háskólanum í Edinborg.

Heiðrún Emilía Jónsdóttir er fædd árið 1969 og hefur verið stjórnarmaður frá apríl 2016. Auk þess að sitja í stjórn bankans er hún stjórnarmaður í Icelandair Group, Reginn fasteignafélagi og varaformaður Lögmannafélags Íslands. Hún starfaði áður sem framkvæmdastjóri hjá Eimskipafélagi Íslands, Lex Lögmannsstofu og framkvæmdastjóri lögfræði- og mannauðssviðs KEA. Hún hefur víðtæka reynslu af stjórnarsetu frá árinu 1998. Hún hefur meðal annars verið formaður stjórnar Norðlenska, Íslenskra verðbréfa, Gildis lífeyrissjóðs og stjórnarmaður í stjórn Ístaks, Reiknistofu bankanna, Arion verðbréfavörslu, Þekkingar, Landssambands lífeyrissjóða, Símans og Olíuverzlunar Íslands. Heiðrún er með embættispróf frá lagadeild Háskóla Íslands og hefur lokið prófi í verðbréfaviðskiptum. Hún lauk stjórnendanámi, Advanced Management Program (AMP) frá IESE Business School í Barcelona á Spáni 2017.

Varamenn verða:

Herdís Gunnarsdóttir og Pálmi Kristinsson , hafa bæði verið starfandi varamenn í stjórn Íslandsbanka frá apríl 2016. Herdís er með MBA frá Háskóla Íslands og Msc og Bsc í hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands. Herdís er framkvæmdastjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands. Pálmi er með Bsc í byggingarverkfræði frá Háskóla Íslands og Msc í verkfræði frá Danmarks Tekniske Højskole. Pálmi er sjálfstætt starfandi ráðgjafi.