*

miðvikudagur, 24. apríl 2019
Innlent 20. ágúst 2018 19:05

Töpuðu aleigunni á rafmyntakaupum

Heildarverðmæti rafmynta hefur skroppið saman um 75% frá því í janúar, og margir hafa tapað öllu á fjárfestingum í þeim.

Ritstjórn
Bitcoin, hin upphaflega rafmynt, og sú verðmætasta, hefur tapað um 2/3 af verðgildi sínu frá hápunkti þess rétt fyrir síðustu jól.

Verðþróun rafmynta hefur verið ansi stormasöm síðastliðið ár. Fyrir sléttu ári kostaði ein eining Bitcoin um 430 þúsund íslenskar krónur, en dagana fyrir jól var verðið komið yfir 2 milljónir. Á nýju ári byrjaði þó að halla undan fæti, og í dag stendur hún í um það bil 700 þúsund krónum.

Segja má að rafmyntaæði hafi gripið um sig síðasta haust, en alls konar nýjar myntir hækkuðu ævintýralega hratt í verði, með Bitcoin, elstu og verðmætustu myntina, í fararbroddi.

New York Times segir sögu nokkurra einstaklinga sem ákváðu að fjárfesta í síhækkandi rafmyntum síðasta vetur í von um gull og græna skóga, en varð ekki kápan úr því klæðinu.

Englendingurinn Pete Roberts keypti nokkrar mismunandi rafmyntir fyrir um 2 og hálfa milljón króna fyrir 8 mánuðum, en þær eru um 435 þúsund króna virði í dag. „Hræðslan við að missa af og tilhugsunin um skyndigróða báru mig ofurliði. Ég er nokkurnveginn kominn á hausinn.“ sagði hinn 28 ára gamli Roberts.

Heildarverðmæti allra rafmynta er í dag um fjórðungur af því sem það var þegar mest lét í janúar, og hefur dregist saman um 600 milljarða dollara, eða um 65 þúsund milljarða íslenskra króna.

Erfitt er að meta heildarumfang viðskipta með rafmyntir, en ýmislegt bendir til þess að fleiri hafi fjárfest í þeim síðastliðinn vetur en höfðu gert það samanlagt í þau 9 ár fram að honum síðan Bitcoin kom fyrst fram á sjónarsviðið.

Tók lán til að fjármagna kaupin
Hin 45 ára gamla Kim Jyon-jeong, sem er kennari í útjaðri Seoul, höfuðborgar Suður-Kóreu, keypti rafmyntir fyrir tæpar 10 milljón krónur síðasta haust. Kaupin fjármagnaði hún meðal annars með sparnaði sínum, og um 2,7 milljón króna láni. Hún hefur nú tapað um 90% fjárins. „Ég hélt að rafmyntir yrðu hin eina sanna bylting fyrir venjulegt vinnandi fólk eins og okkur. Ég hélt að ég og fjölskyldan gætum sloppið úr klóm fátæktar og lifað betur, en það fór á hinn veginn.“

Tony Yoo, 26 ára fjármálagreinandi í Los Angeles, fjárfesti fyrir um 11 milljónir króna. Þegar eignir hans náðu botni höfðu þær rýrnað um næstum 70%. Yoo hefur hinsvegar enn tröllatrú á að rafmyntir séu það sem koma skal í netviðskiptum.

„Það er bara svo mikið meira á bak við þessa nýju tækni og nýsköpun, sem ég er viss um að mun taka yfir með tíð og tíma.“ sagði hann, og bætti við að nú þegar verðið væri orðið lágt, hefði hann hug á að fjárfesta enn meira.

Stikkorð: Bitcoin rafmynt
25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim