Skiptum á þrotabúi hlutafélagsins Sandhóll ehf. er nú lokið. Kröfur í fé­ lagið námu rúmri 141 milljón króna en ekkert fékkst upp í kröfurnar. Skipti á þrotabúinu höfðu staðið yfir síðan í september árið 2011, eða í tæplega fimm ár. Félagið starfaði við útleigu atvinnuhúsnæðis og var frá stofnun til ársins 2007 í eigu Skúla Bergmanns Hákonarsonar samkvæmt ársreikningum.

Frá árinu 1995 til 2002 hét fyrirtækið Smárar ehf. en þá hét það Pylsuvagninn Laugardal í eitt ár áður en nafninu var breytt á ný í Sandhóll ehf. árið 2003. Það var svo árið 2007 að Guð­mundur Andri Skúlason og Sigrún Hafsteinsdóttir keyptu allt hlutafé í félaginu.

Guðmundur Andri er sonur Skúla B. Hákonarsonar og er þekktur fyrir að hafa setið í stjórn Borgarahreyfingarinnar, stjórnmálaflokks sem bauð fram til Alþingis árið 2009. Hann er einnig stofnandi Samtaka lánsþega, sem stofnuð voru 2009, og hefur verið talsmaður samtakanna frá stofnun þeirra. Samtökin höfðu þá yfirlýstu stefnu að beita fjármálastofnanir þrýstingi – meðal annars með því að hvetja fólk til aðgerða í formi greiðslufalls og með þátttöku í hópmálsóknum.

Guðmundur Andri tapaði máli gegn Frjálsa fjárfestingarbankanum í september 2011. Þá höfðu Guðmundur og eiginkona hans, Sigrún Hafsteinsdóttir, krafið bankann um 39 milljónir króna í skaðabætur vegna láns sem hann veitti þeim hjónum. Í kæru sinni héldu Guðmundur og Sigrún því fram að gengistryggt lánið hefði verið ólögmætt og að þau hefðu orðið af verulegum fjármunum.

Málsatvik voru þau að Guðmundur og Sigrún tóku við Sandhóli ehf. af föður Guðmundar í árslok desember 2007. Mánuði fyrr hafði Sandhóll tekið lán hjá Frjálsa fjárfestingarbankanum. Lánið var í erlendri mynt – 40% svissneskir frankar og 60% japönsk jen. Samtals var lánið upp á 80 milljónir íslenskra króna. Lánið átti að nota til að kaupa fasteign að Laugavegi 51.

Guðmundur og Sigrún áttu félagið ekki lengi, en með kaupsamningi sem ritaður var í maí 2008 seldu þau allt hlutafé sitt í félaginu til Sverris Einars Eiríkssonar fyrir tvær milljónir króna. Lánið gengistryggða hafði þá hækkað um 33 milljónir króna að eftirstöðvum og var orðið 113 milljónir króna.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .

Athugasemd: Guðmundur og Sigrún voru ekki eigendur Sandhóls þegar félagið fór í þrot. Þetta var ekki skýrt í fyrri netútgáfu fréttarinnar, en hefur nú verið skýrt frekar. Þá misfórst dagsetning kaupsamningsins í prentútgáfu fréttarinnar. Ranglega stóð að þau Guðmundur og Sigrún hefðu selt félagið með kaupsamningi sem undirritaður var í apríl 2009, en hið rétta er að kaupsamningurinn var undirritaður í maí 2008. Beðist er velvirðingar á þessum mistökum.