Stjórnendur Enska knattspyrnuliðsins Tottenham Hotspur gáfu það út í dag að ekki stæði til að selja félagið samkvæmt frétt BBC . Breska blaðið Sunday Times greindi frá því í gær að bandaríski fjárfestingarsjóðurinn Iconiq Capital sem er meðal annars í eigu Mark Zuckerberg, hygðist gera tilboð upp á einn milljarð punda í Lundúnaliðið.

Félagið hefur hafið byggingu á nýjum leikvangi á sama stað og eldri leikvangur liðsins, White Hart Lane stóð á. Nýr leikvangur er fjármagnaður með lánum frá Goldman Sachs, Bank of America og HSBC.

Í yfirlýsingu sem stjórn félagsins sendi frá sér kemur fram að aðrir möguleikar á fjármögnun hafi verið í boði og þar á meðal fjármögnun með hlutafé. Í yfirlýsingunni segir einnig að stjórn félagsins trúi því að sú leið sem hafi verið farinn við fjármögnun á nýjum leikvangi þjóni best hagsmunum stuðningsmanna, starfsmanna og eigendum félagsins fyrir áframhaldandi uppbyggingu félagsins. Bætti stjórnin því við að engar viðræður hafi átt sér stað varðandi yfirtökuu á félaginu.

Tottenham sem endaði í öðru sæti ensku úrvalsdeildarinnar í síðasta leiktímabili gerir ráð fyrir því að nýr leikvangur muni verði tilbúinn fyrir leiktímabilið 2018-2019. Nýr leikvangur mun taka 61.000 manns í sæti og er kostnaður við bygginguna talinn nema 750 milljónum punda. Þá er einnig gert ráð fyrir því að 3.500 ný störf muni skapast á svæðinu í kring um völlinn þegar hann verður tilbúinn.

Tottenham er í meirihluta eigu breska fjárfestingarfyrirtækisins ENIC International sem á 85,55% hlut í félaginu. ENIC er í eigu breska milljarðamæringsins Joe Lewis og Daniel Levy sem er forstjóri og stjórnarformaður Tottenham.