TourDesk ehf. er lítið fyrirtæki sem hefur þróað veflausn sem miðar að því að auðvelda ferðamönnum að bóka styttri ferðir á meðan á dvöl þeirra hér stendur. Fyrirtækið er í eigu þeirra Sigurþórs Marteins Kjartanssonar, Erlings Gudjohnsen og Hjartar Atla Guðmundssonar. Fyrirtækið var stofnað árið 2013 en frá miðju síðasta ári hefur verið settur aukinn kraftur í þróun hugbúnaðarins og nú sé svo komið að fjöldi gististaða nýtir sér þá lausn sem TourDesk býður upp á.

Hjörtur Atli Guðmundsson.
Hjörtur Atli Guðmundsson.
„TourDesk er hugbúnaður eða veflausn, sem hægt er að nálgast á netinu," segir Hjörtur Atli. „Þetta er tvíþætt annars vegar er vefsíða sem til dæmis hótelgestir geta nálgast og klárað sínar pantanir alveg sjálfir en hins vegar er síða sem starfsfólk í móttöku gististaða notar til að panta ferðir fyrir gestina. Þetta er algjörlega frá grunni þróað af okkur."

Minna flækjustig

Hjörtur Atli segir að hugmyndin hafi kviknað hjá þeim félögum eftir að þeir ráku sig á  þær flækjur sem geta orðið þegar verið er að panta ferðir eða afþreyingu fyrir hótelgesti.

„Ef gestur vildi bóka ferð þá þurfti hótelstarfsmaðurinn að hringja eða senda tölvupóst til að athuga hvort það væri laust. Síðan þurfti hann að fá staðfestingu frá viðkomandi fyrirtæki á því að það væri laust. Því næst þurfti hann jafnvel að skrifa úttektarmiða (e. voucher) fyrir gestinn. Okkur fannst þetta alltof mikið flækjustig og fórum að leita leiða til að einfalda þetta ferli allt saman og útkoman úr þeirri þróunarvinnu er TourDesk.

Allt á síðunni er uppfært í rauntíma þannig að allt sem er bókað fer samstundis inn í kerfi viðkomandi birgja. Ætli við séum ekki í dag með 40 til 50 birgja. Þá er ég að tala um ferðaskrifstofur, ferðaskipuleggjendur, bílaleigur, rútufyrirtæki og líka nokkra veitingastaði. Þetta virkar síðan þannig að gististaðurinn sem er að nota okkar kerfi fær þóknun fyrir hverja bókun."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð