Japanski bílaframleiðandinn Toyota hyggst fjárfesta 500 milljónum dollara, sem samsvarar 53,4 milljörðum króna, í deiliveitunni Uber.

Fyrirtækin hyggjast í sameiningu vinna að fjöldaframleiðslu sjálfkeyrandi bíla sem stefnt er að því að nota við farþegaakstur Uber. Með fjárfestingunni er Uber í heild metið á 72 milljarða dollara, tæplega 8.000 milljarða króna.

Bæði Uber og Toyota hafa setið eftir í þróun sjálfkeyrandi bíla að því er BBC greinir frá . Uber hafði dregið úr fjárfestingu í sjálfkeyrandi bílum eftir banaslys i Arizona í mars þegar bíll frá Uber ók á gangandi vegfaranda.

BBC segir að með samstarfinu geti Uber létt undir háum fjárfestingakostnaði við þróun sjálfkeyrandi bíla. Þá telji Toyota sig hafa tryggt sér stóran viðskiptavin fari hlutfall einkabíla lækkandi á næstu árum með auknum fjölda sjálfkeyrandi bíla.