*

mánudagur, 21. janúar 2019
Innlent 29. mars 2012 15:30

Toyota á Íslandi tapaði 1,3 milljörðum í fyrra

Eigið fé Toyota á Íslandi var neikvætt um 3,1 milljarð um áramótin. Vonast er til að endurskipulagning tryggi rekstrarhæfið.

Ritstjórn

Toyota á Íslandi tapaði rúmum 1,3 milljörðum króna á siðasta ári, samkvæmt ársuppgjöri. Þetta er rúmum 300 milljónum krónum meira tap en árið 2010. 

Samkvæmt rekstrarreikningi Toyota jukust rekstrartekjur talsvert á milli ára. Þær námu tæpum 4,5 milljörðum króna í fyrra en voru rúmir 3,7 milljarðar árið 2010.

Rekstrartap félagsins nam 19 milljónum króna í fyrra sem er verulegur viðsnúningur á milli ára þegar tapið nam tæpum 442 milljónum króna árið 2010.

Samkvæmt efnahagsreikningi námu eignir félagsins  3.524 milljónum króna í lok síðasta árs samanborið við tæpa 3,2 milljarða í lok árs 2010. Eigið fé í árslok er neikvætt um 3.111 milljónir króna sem er næstum helmingi verri niðurstaða en í lok árs 2010 þegar eigið fé umboðsins var neikvætt um 1.726 milljónir. Eiginfjárhlutfall fyrirtækisins hefur verið neikvætt frá 2008.

Fjárhagslegri endurskipulagningu lokið

Fram kemur í uppgjöri Toyota að í byrjun þessa árs var gengið frá fjárhagslegri endurskipulagningu félagsins með samningi við viðskiptabanka þess, Landsbankann. Helstu niðurstöður aðgerðanna var að skuldum var breytt í hlutafé auk þess sem gerð var leiðrétting á erlendum lánum félagsins. Með þessari leiðréttingu er áætlað að eigið fé félagsins verði jákvætt. Þá telja stjórnendur félagsins að rekstrarhæfi umboðsins verði tryggt með samningnum. 

Aðalfundur Toyota var haldinn í dag. Kjörnir voru í stjórn umboðsins þeir Úlfar Steindórsson, forstjóri Toyota, og Steinþór Baldursson sem kemur nýr inn í stjórn félagsins. Varamaður er Kristján Þorbergsson.