Toyota á Íslandi þarf að innkalla 2.249 bíla af gerðunum Yaris, Corolla, Auris, Rav4 og Urban Cruiser. Bifreiðarnar sem um ræðir eru af árgerðunum 2005-2010. Greint er frá þessu í tilkynningu á heimasíðu Neytendastofu.

Í tilkynningu Neytendastofu segir:

„Ástæða innköllunarinnar er að stirðleiki er í hnöppum í stjórnborði fyrir rúðu upphalara í bílstjórahurð. Rofarnir sem hnapparnir stýra þurfa að leiða mikinn straum og hitna þar af leiðandi töluvert. Ef reynt er að smyrja stirða hnappa með venjulegum smurefnum eins og WD40 eða Würth 2000 sem ekki eru hitaþolin getur myndast reykur og jafnvel kviknað í þeim. Toyota mun smyrja rofana með sérstakri hitaþolinni feiti og ef stirðleiki eða sviðnun finnst í rofa verður skipt um stjórnborðið.“

Eigendum þeirra bíla sem þarf að kalla inn verður sent bréf vegna málsins.