Gengið hefur verið frá kaupum UK fjárfestinga ehf., sem er móðurfélag Toyota á Íslandi á 85% hlut í Kraftvélum ehf. og Kraftvélaleigunni ehf. Kraftvélar eru þar með orðnar systurfélag Toyota á Íslandi og Toyota Kauptúni að því er segir í fréttatilkynningu.

Rafhlutir ehf., félag feðganna Ævars Björns Þorsteinssonar, forstjóra og Viktors Karls Ævarssonar, framkvæmdastjóra sölu- og markaðssviðs Kraftvéla mun hér eftir eiga 15% hlut í Kraftvélum og Kraftvélaleigunni.

Kraftvélar selja vinnuvélar fyrir byggingaiðnað, vegagerð, vörumeðhöndlun og landbúnað, meðal annars gröfur frá Komatsu, lyftara frá Toyota, dráttarvélar frá New Holland og Case IH, atvinnubíla frá Iveco og byggingakrana frá Potain.

Umsvif fyrirtækisins hafa vaxið í takt við auknar framkvæmdir í landinu á undanförnum misserum. Heildarmarkaður fyrir vinnuvélar óx um 44% á fyrstu 9 mánuðum þessa árs miðað við sama tíma í fyrra. Höfuðstöðvar Kraftvéla eru við Dalveg í Kópavogi en auk þess eru 7 þjónustuaðilar víða um land.