Toyota mun áfrýja dómi Héraðsdóms Reykjaness til Hæstaréttar en félagið stefndi endurskoðunar- og ráðgjafarfyrirtækinu Deloitte fyrir að hafa veitt sér ráðgjöf um öfugan samruna. Dómur féll í málinu í janúar þar sem niðurstaðan var sú að sú vinna sem Deloitte innti af hendi hefði verið í fullu samræmi við viðurkenndar aðferðir, innlendar sem erlendar. Deloitte var því sýknað af kröfum stefnanda sem fór fram á 31,7 milljónir króna í skaðabætur ásamt dráttarvöxtum og verðtryggingu frá 2013. Toyota var dæmt til að greiða Deloitte málskostnað upp á 1,5 milljónir króna.

Toyota hélt því fram að Deloitte hefði veitt fyrirtækinu ráðgjöf þegar Bergey, félag í eigu Magnúsar Kristinssonar, keypti Toyota á Íslandi árið 2005. Í framhaldinu tók Toyota Bergey yfir með skuldum og eignum. Slíkt nefnist öfugur samruni og var algengur á þeim tíma. Fyrirtækið varð hins vegar fyrir endurálagningu vegna samrunans sem nam 93 milljónum króna.

Deloitte sá um skattskýrslugerðina

Helgi Jóhannesson, lögmaður hjá Lex, flutti málið fyrir Toyota segir að málinu verði áfrýjað til Hæstaréttar. Spurður hvers vegna málið hafi beinst að Deloitte en ekki KPMG segir Helgi: „Af því að Deloitte kom að samrunanum með því til dæmis að útbúa samrunagögn og það sá um skattskýrslugerð fyrir félagið í kjölfar samrunans.“ Helgi segist ekki þekkja atvik í öðrum svipuðum málum en að hvert mál hafi sín séreinkenni.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .