Japanski bílaframleiðandinn Toyota hefur selt alla hluti sína í rafbílafyrirtækinu Tesla. Toyota seldi öll hlutabréf sín í Tesla í desember á síðasta ári en salan var tilkynnt í gær. Financial Times greinir frá.

Toyota keypti 3% hlut í Tesla árið 2010 fyrir um 50 milljónir Bandaríkjadollara sem hluta af samkomulagi um að selja verksmiðju sína í Fremont í Kaliforníu til Tesla. Fyrirtækin hafa síðan frá árinu 2012 unnið saman að því að þróa rafbíla og kallaði Elon Musk, forstjóri Tesla, samstarfið „sögulegt“. Þá sagðist Akia Toyoda, forseti Toyota, hafa fundið fyrir „vindi framtíðarinnar“ þegar hann prufukeyrði Tesla Roadster árið 2010.

Samkvæmt frétt Financial Times hefur fjarað undan samstarfi Toyota og Tesla frá árinu 2014 vegna menningarlegs ágreinings milli fyrirtækjanna. Tesla er áhættusækið fyrirtæki með „Silicon Valley viðskiptamódel“ en Toyota er íhaldssamara fyrirtæki með áherslu á öryggi í sinni verkfræði.

Nú hyggst Toyota hefja sína eigin þróun á rafbílum og verða Toyota og Tesla því keppinautar. Toyota myndaði nýja deild í nóvember á síðasta ári sem hefur það hlutverk að þróa rafbíla.