Bandaríska leikfangaverslunarkeðjan Toys R Us hefur óskað eftir greiðslustöðvun en meðal um 1.600 verslana keðjunnar út um allan heim er hún meðal annars með útibú hér á landi. Gjaldþrotameðferðin nær ekki til starfsemi utan Bandaríkjanna og Kanada

Skuldir keðjunnar nema 4,9 milljörðum Bandaríkjadala, eða sem nemur 523 milljörðum íslenskra króna, og þarf félagið að greiða af þeim 400 milljónir dala í afborganir á næsta ári og 1,7 milljarð árið 2019.

Dave Brandon forstjóri og stjórnarformaður fyrirtækisins vonast til þess að með þessu verði hægt að endurskipuleggja rekstur fyrirtækisins svo vörumerkið haldi áfram „í margar kynslóðir,“ af því er fram kemur á CNBC .

Félagið segir að þegar hafi sumir lánveitendur félagsins, til að mynda hópur á vegum fjárfestingarbankans J.P. Morgan, lofað að koma að samkomulagi um að breyta hluta af lánunum í hlutafé. Skuldirnar komu til vegna 6,6 milljarða dala yfirtöku Kohlberg Kravis Roberts, Bain Capital Partners og fasteignasjóðsins Vornado Realty Trust á fyrirtækinu árið 2005.