Ingólfur Bender, forstöðumaður Greiningar Íslandsbanka, segir að rök Seðlabankans á bak við ákvörðunina séu í takt við þau rök sem greiningardeildin bjóst við að heyra frá bankanum. Hagvöxtur í fyrra hafi verið meiri en spáð var en á móti hefði krónan styrkst frá síðustu vaxtaákvörðun og aukinn friður væri á vinnumarkaði.

„Þeir eru hins vegar áfram með hlutlausan tón varðandi næstu að­gerðir á meðan við reiknum með því að þeir lækki í vexti í maí, og reyndar um 50 punkta fyrir mitt þetta ár. Þar erum við kannski að byggja á aðeins öðrum væntingum en þeir voru að flagga í dag, við erum að búast við því að krónan komi til með að styrkjast fram að því,“ segir Ingólfur.

Vissulega verði að gera fyrirvara við gengisspár á stundum sem þessum, þegar flöktið er meira en vanalega, en undirliggjandi stærðir bendi frekar til styrkingar krónunnar að mati greiningardeildarinnar. Þar hefur afnám hafta á dögunum lítil áhrif.

„Við reiknuðum ekki með því að afnám þessara hafta myndi skapa mikið útflæði fjármagns. Þessi höft voru þannig lagað ekki að hefta neina, allavega ekki til skemmri tíma litið. Auðvitað er verið að lyfta höftum á útflæði, en á móti erum við með tiltölulega kröftugt innlent efnahagslíf og góðar horfur hér á landi. Við­skiptajöfnuður, erlenda skuldastaðan, gjaldeyrisforðinn og fleiri þættir benda frekar til þess að krónan geti styrkst. Við svona að­stæður eru menn ekkert að hlaupa út, enda hefur það sýnt sig á gengisþróuninni eftir að tilkynnt var um afnám hafta. Þær hreyfingar má túlka sem eins konar traustsyfirlýsingu á stöðu krónunnar.“