Sprotafyrirtækið Travelade var stofnað síðastliðið haust af þeim Andra Heiðari Kristinssyni, fyrrum þróunarstjóra hjá LinkedIn og Hlöðveri Þór Árnasyni, fyrrum tæknistjóra hjá Já.is. Um er að ræða samfélags- og upplýsingavef um ferðalög sem er sérsniðið að ferðastíl hvers og eins ferðamanns.  Markhópur fyrirtækisins er fyrst og fremst hin svokallaða Airbnb kynslóð , þ.e. ungt fólk sem skipuleggur ferð sína sjálft á netinu og notast ekki við ferðaskrifstofur eða kaupir tilbúnar pakkaferðir.

Opna í Bosníu og Kúbu

Að sögn Andra, forstjóra fyrirtækisins, hefur Travelade gengið vonum framar á Íslandi í sumar og undirbýr fyrirtækið nú vöxt á fyrstu mörkuðum erlendis.

„Undirbúningur er nú þegar vel á veg kominn að opna vefinn fyrir fyrstu nýju löndum Travelade,” segir Andri. Travelade hóf að selja ferðir á Íslandi til erlendra ferðamanna núna fyrr í sumar og er strax farið að byggja upp fyrstu tekjur.  „Núna strax á næstu vikum munum við opna vefinn fyrir ferðamenn á leið til Bosníu og Kúbu. Í kjölfarið munu fleiri lönd á borð við Ísrael, Noreg og önnur Norðurlönd bætast í hópinn. Stefna félagsins er að byrja með starfsemi í löndum sem eiga það sameiginlegt að vera lítil en með hraðvaxandi ferðaþjónustu þar sem lögð er áhersla á náttúrufegurð, menningu og ríka söguarfleið.“

Vaxandi markaður

Sá hluti ferðamarkaðarins sem snýr að sölu á afþreyingu og stuttum dagsferðum erlendis er stór og ört vaxandi markaður. Nemur velta markaðarins um tífaldri þjóðarframleiðslu Íslands. Í spá greiningarfyrirtækisins Phocusright er gert ráð fyrir því að markaðurinn muni vaxa um 8% á ári næstu árin. Þá gerir spá Phocusright ráð fyrir því að velta markaðarins muni nema um 185 milljörðum dollara árið 2020.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Skýrar vísbendingar eru um að húsnæðismarkaðurinn sé farinn að kólna.
  • Rætt er við Karl-Johan Perrson, forstjóra H&M Group, um opnun verslana fyrirtækisins á Íslandi.
  • Fjallað er um samfellda sorgarsögu húsnæðis Orkuveitunnar við Bæjarháls.
  • Miklar framfarir hafa verið í fjártækni á undanförnum árum.
  • Ítarlegt viðtal við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins.
  • Rætt er við forsvarsmenn sprotafyrirtækisins Qpons.
  • Haukur Bent Sigmarsson, nýr framkvæmdastjóri Eleven Experience á Íslandi er tekin tali.
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs, sem fjallar um borgarpólitíkina.
  • Óðinn fjallar um afskiptasemi seðlabankanna.