Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, lýsir því yfir á Facebook-síðu sinni nú fyrir stuttu að hún geti ekki treyst loforði forsætisráðherra um að boðað verði til kosninga eftir þetta þing. Segir hún hann litlu ráða og að atburðarrásin sé hönnuð til að þjónka við sjálfstæðisflokkinn. Allt verði reynt til að koma sér undan ábyrgð á því ástandi sem nú er í samfélaginu.

„það er ófremdarástand núna, það er verið að hafa okkur að fíflum“ ritar Birgitta jafnframt. Hún segist vilja að það sé alveg ljóst að hún vilji kosningar strax en hvorki þau í minnihluta þingsins né meirihluti þjóðarinnar, hafi stjórnvaldsleg verkfæri til að stoppa það sem hún kallar óreiðu og svívirðu.

Ríkisstjórnin geti í raun og veru gert nákvæmlega það sem henni sýnist. Sé hægt á þingstörfum hóti meirihlutinn að hætta við að hætta og minnihlutanum verði kennt um að stoppa t.d. nýju húsnæðislögin sem hafi verið í hægagangi þar sem stjórnarflokkarnir eru ekki samstíga.

Birgitta segir vert að hafa í huga að vegna þess að þjóðin sé ekki með nein stjórnarfarsleg verkfæri til að losa sig við vanhæfar ríkisstjórnir þá dugi bara að standa þarna úti og gefa þessu fólki rauða spjaldið. Það sé auðvitað óþolandi í ljósi þess að því hafi verið lofað á síðasta kjörtímabili að breyta því en þeir sem nú fara við völd hafi eyðilagt það ferli að færa almenningi alvöru völd til aðhalds á ögurstund.