Samtök Atvinnulífsins vilja að ríkið standi við fyrirheit sín og lækki tryggingargjald, enda hafi sú lækkun verið ein forsenda kjarasamninganna sem samtökin skrifuðu undir við ASÍ á grundvelli Salek rammasamkomulagsins. Gjaldið segja þau vera mun hærra en minnkandi atvinnuleysi kalli á, auk þess að koma hart niður á fyrirtækjum, sérstaklega litlum og meðalstórum.

Segjast samtökin ekki trúa öðru en sú lækkun verði bundin í lög á þessu ári og taki gildi um næstu áramót, en tillögur meirihluta efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis sem kynntar voru í vikunni gera ekki ráð fyrir lækkun þess í ársbyrjun 2017.

Lækkunin kemur ekki inn að óbreyttu

Fjármálaráðherra lagði fram í apríl frumvarp á Alþingi þar sem kveðið er á um lækkun tryggingagjaldsins fyrir þetta ár, en í ljósi væntanlegra flýta á alþingiskosningum leggja samtök Atvinnulífsins áherslu á að lækkunin fyrir næsta ár verði lögfest.

Samkomulagið um lækkunina gerði ráð fyrir að gjaldið myndi lækka um 0,5 prósentustig um mitt ár 2016, og jafnmikið árin 2017 og 2018 þannig að gjaldið yrði komið í fyrra horf, eða í 4,5% á árinu 2018.

Samtökin telja fjármálaáætlun ríkissjóðs til ársins 2021 sýna ljóslega að svigrúm sé til lækkunarinnar, vegna vaxandi tekna ríkissjóðs og lækkunar skulda. Þannig yrði fyrirtækjum gert auðveldara að mæta umsömdum launahækkunum og jafna lífeyrisréttindi eins og rammasamkomulagið gerir ráð fyrir, án hættu á að raska efnahagslegum stöðugleika.