Í gærkvöldi felldi borgarstjórnarmeirihluti Samfylkingar, Pírata, Bjartrar framtíðar og Vinstri grænna tillögu um að Hjálpræðisherinn njóti sömu undanþágu á byggingarréttargjaldi og Félag múslima fær fyrir úthlutaðar lóðir hlið við hlið við Suðurlandsbraut.

Fái sömu undanþágu á byggingarréttargjaldi

Tillagan sem Kjartan Magnússon borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins flutti var svohljóðandi:

„Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina leggja til að í ljósi starfsemi þeirrar sem Hjálpræðisherinn stendur fyrir og hefur staðið fyrir í Reykjavík í rúma öld verði samtökin undanþegin byggingarréttargjaldi vegna úthlutunar lóðar við Suðurlandsbraut 72-74.“

Tillagan var felld með fjórum atkvæðum Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna gegn þremur atkvæðum Sjálfstæðisflokks og Framsóknar.

Einungis 3 ár síðan Félag múslima fékk undanþágu

„Þrátt fyrir að mörg önnur trúfélög hafi notið venjubundinnar fyrirgreiðslu frá borginni sem fellst í niðurfellingu gjalda vegna lóða, þá kemur í ljós að meirihlutinn vill ekki veita hjálpræðishernum þessa sömu fyrirgreiðslu,“ segir Kjartan Magnússon í samtali við Viðskiptablaðið.

„Það kemur í óvart í ljósi alls þess góða starfs sem þeir hafa unnið í gegnum árin og eru enn að vinna af miklum krafti.“

„Einungis þrjú ár eru síðan borgin úthlutaði öðru trúfélagi lóð á sama stað án en í því tilviki voru engin gjöld innheimt fyrir lóðina, hvorki gatnagerðargjald né byggingarréttargjald.“

Velferðarþjónusta löngu á undan borginni

Í kjölfar höfnunar borgarstjórnarmeirihlutans lögðu fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og flugvallarvina fram eftirfarandi bókun:

„Hjálpræðisherinn hefur í meira en 120 ár staðið fyrir umfangsmikilli hjálpar- og góðgerðastarfsemi í Reykjavík. Samtökin hófu að veita heimilislausu fólki mat og húsaskjól auk margvíslegrar annarrar þjónustu löngu áður en eiginlegri velferðarþjónustu var komið á í borginni og hafa gert það með öflugum hætti allar götur síðan.

Hjálpræðisherinn hyggst nú flytja á nýjan stað í borginni og efla um leið starfsemi sína. Í ljósi þessarar starfsemi er því rétt að samtökin verði undanþegin byggingarréttargjaldi vegna úthlutunar lóðar við Suðurlandsbraut 72-74 en greiði hins vegar gatnagerðargjaldi,“ segir í bókuninni.

Harma í ljósi samanburðar

„Við hörmum að meirihluti Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna skuli kjósa að fella tillögu Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina um að samtökin verði undanþegin byggingarréttargjaldi vegna umræddrar byggingar.

Til samanburðar má nefna að árið 2013 ákvað meirihluti Samfylkingar og Bjartrar framtíðar að úthluta öðru skráðu trúfélagi, Félagi múslíma, lóð undir moskubyggingu við sömu götu og var sú lóðarúthlutun undanþegin bæði byggingarréttargjaldi og gatnagerðargjaldi, ásamt því að í því tilviki voru engar kvaðir um skil lóðar ef frestir væru ekki virtir.“