Donald J. Trump Bandaríkjaforseti boðar umfangsmiklar skattalækkanir en hann hyggst tilkynna nánar hvaða form þær taka í næsta miðvikudag. Frá þessu er greint í frétt CNBC.

„Við verðum með stóra tilkynningu á miðvikudaginn sem snýst um skattabreytingar. Ferlið er þegar hafið og hefst formlega næstkomandi miðvikudag,“ sagði Trump á fundi fjármálaráðuneytisins fyrir helgi. Fyrr sagði hann í viðtali við Associated Press að einstaklingar og fyrirtæki fengju „umfangsmiklar skattalækkanir“. Hann bætti við að hann telji skattalækkanirnar þær umfangsmestu sem þekkst hefðu.

Í kjölfarið sendi Hvíta húsið frá sér tilkynningu sem dróg eilítið úr loforði Trumps. „Forsetinn vísar til þess sem við höfum alltaf stefnt að, að breyta skattkerfinu eins fljótt og auðið er, en á sama tíma að gera það rétt,“ sagði í tilkynningu Hvíta hússins til CNBC.