Hlutabréf í asískum birgjum bandaríska stórfyrirtækisins apple féllu í verði á mörkuðum í dag í kjölfar tísts Donald Trump forseta Bandaríkjanna á samfélagsmiðlinum Twitter. Í tístinu sagði Bandaríkjaforseti að ef fyrirtækið hyggist sleppa undan tollum á innflutning frá Kína þyrfti tæknirisinn að framleiða meira af vörum sínum í Bandaríkjunum.

Kom tístið frá Trump eftir að Apple sagði bandarískum viðskiptayfirvöldum fyrir helgi að áætlaðir viðbótartollar landsins á kínverskar vörur myndu hafa áhrif á verð á fjölmörgum Apple vörum, þar með talið Apple úrsins.

Svarar svartollum með enn meiri tollum

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um svöruðu Kínverjar upphaflegum tollum Bandaríkjastjórnar á vörur frá landinu með jafnháum tollum, en Trump hyggst hefna fyrir það með tollum á innflutning frá landinu sem nemur meira en sem samsvarar öllum innflutningi Kínverja á bandarískum vörum.

Meðal þeirra kínversku fyrirtækja sem sáu hlutabréfaverð sitt falla um meira en tíunda hluta í dag eru Luxshare Precision, Shenzhen Sunway Communication og Suzhou Dongshan Precision Manufacturing. Auk þess lækkaði gengi bréfanna Lens Technology, Universal Scientific Industrial Shanghai og Suzhou Anjie Technology um 6 til 8 prósent.

Í kínverska lýðveldinu, oft kallað Taiwan, féll gengi myndavélalinsuframleiðandans Largan Pricision um nærri 8% og Foxconn um 3,4%. Einnig féll gengi samsetningarfyrirtækisins Pegatron Corp um nærri 4%. Loks féll gengi ASE Technology Holding um 2,9%.

Einnig féll gengi AAC Technologies í Hong Kong um meira en 5%, en fyrirtækið framleiðir ýmis búnað fyrir hljóð og snertitækni fyrir iPhone, iPad og Apple úrið. Gengi japanskra tæknifélaga lækkaði einnig, en ekki jafnmikið, Nissha lækkaði um 0,4%, Japan Display um 0,7% og Sharp Corp um nærri 1%.