Í ræðu sinni í dag sagði Donald Trump, sem gefið hefur kost á sér til forseta Bandaríkjanna, að of fáir Bandaríkjamenn væru starfandi, að of mörgum störfum væru úthýst og að of margar fjölskyldur næðu ekki endum saman. Í framhaldinu kynnti hann skattaáætlun sína til leiks en í henni segir meðal annars að hann vill afnema tekjuskatt á einstaklinga sem þéna minna en 25.000 dollara á ári og á fjölskyldur sem þéna minna en 50.000 dollara á ári. Þetta kemur fram í frétt Yahoo Finance .

Áætlunin er þó líka fyrirtækjum og vel efnuðum einstaklingum hliðholl þar sem hún kveður um lækkun fyrirtækjaskatts úr 35% niður í 15%. Einnig vill Trump lækka hæsta tekjuskattsþrepið úr 39,6% í 25%. Spurning er þá á hverjum kemur áætlunin niður á. Svarið er á vogunarsjóðum en Trump kveðst vilja fjarlægja glufur í kerfinu og breyta lögum á þann hátt að vogunarsjóðir geta ekki fengið frádráttarheimild frá skatti.

Trump metur það svo að skattaáætlunin hans muni leiða til að minnsta kosti 3% hagvaxtar á ári en gæti jafnvel farið upp í 5-6% á ári. Jafnframt segir Trump að breytingar muni ekki bæta ofan á fjárlagahalla Bandaríkjanna eða auka erlendar skuldir þeirra.