Donald Trump Bandaríkjaforseti, í samvinnu við meirihluta Repúblikanaflokksins í fulltrúadeildinni, neðri deild Bandaríkjaþings kynnti í dag til sögunnar róttækar umbætur á skattkerfi fyrirtækja í landinu. Með tillögunum verður tekjuskattur fyrirtækja í landinu færður niður í 20% ásamt því að tekjur bandarískra fyrirtækja erlendis verða ekki lengur skattlagðar.

Kevin Brady, formaður þingnefndar Bandaríkjaþings um tekjur og önnur mál kallar tillögurnar hugrakkar og að þær muni „tryggja fleiri störf, réttlátari skatta og hærri laun.“ Skýrslan segir jafnframt að með sanngjarnara skattkerfi verði meira jafnræði á milli allra sem opni aukin tækifæri fyrir verkamenn, smáfyrirtæki og meðaltekjufjölskyldur í landinu.

„Of margir eru lokaðir úti frá vaxtatækifærum í bandaríska hagkerfinu, sem hefur leitt til þeirrar skiljanlegu tilfinningar að kerfið sé gert til höfuðs harðduglegum Bandaríkjamönnum,“ segir í skýrslunni að því er Business Insider greinir frá.

Enn er ekki búið að kynna alla liði áætlunarinnar, en þau atriði sem þegar hafa komið fram eru:

  • Fyrirtækjaskatturinn lækkar úr 35% niður í 20%, en Trump hafði lofað að hann yrði 15% í kosningabaráttu sinni.
  • Fjármagnstekjuskattur af fyrirtækjum mun verða lækkaður niður í 25%, í stað þess að tekjurnar verði skattlagðar eins og aðrar tekjur.
  • Afnám undanþága og hvata fyrir sérstakan iðnað og fyrirtæki.
  • Fyrirtækjum sem hafa hingað til haldið tekjum erlendis verður boðið að greiða einskiptisendurkomuskatt, sem talinn er verða í kringum 10% þó hlutfallið sjálft hafi ekki verið gefið upp. Líklegt er að skattur af fasteignum og öðrum eignum verði lægri en skattur af fjármagni.
  • Tekjuskattur einstaklinga verði í þremur þrepum, líklegast með sameiningu tveggja lægstu þrepanna, sem nú standa í 10% og 15% í eitt 12% þrep. Hin þrepin eru talin verða 25% og 35%, en í dag er hæsta þrepið með 39,6% skatt. Þó er mögulegt að fjórða stiginu verði bætt við fyrir þá allra ríkustu að kröfu Trump.
  • Persónuafsláttur verði hækkaður til að koma í veg fyrir skattahækkun á þá sem nú greiða 10% skatt. Talar skýrslan um tvöföldun hans upp í 12 þúsund dali, en í dag er hann 6.350 dalir. Það gerir hækkun úr tæplega 700 þúsund krónum í 1,3 milljónir króna á ári á ári fyrir einstaklinga. Jafnframt er gert ráð fyrir hækkun úr 12.700 dölum í 24 þúsund dali fyrir hjón.
  • Afnám undanþága og frádráttar, sem eftir er að útfæra nánar, en þó er gert ráð fyrir að áfram verði hægt að draga frá skatti gjafir til góðgerðarstarfs ýmis konar ásamt vaxtagreiðslum af húsnæðislánum.
  • Skattaafsláttur fyrir börn yrði hækkaður og jafnframt yrðu tekjumörkin afsláttarins hækkuð, en auk þess myndu fyrstu 1.000 dalirnir verða endurgreiddir ef ekki nýttir.
  • Afnám frádráttar vegna skattheimtu ríkja og sveitarfélaga, en þessi frádráttarheimild er mest nýtt af íbúum í háskattaríkjum Bandaríkjanna sem stjórnað er af Demókrataflokknum.
  • Afnám erfðafjárskatts, en þess utan er einnig stefnt að frekari hvata til eftirlaunasparnaðar.