Donald Trump sagðist í samtali við CNBC í gær vera óánægður með stýrivaxtahækkanir seðlabankans þar í landi, samkvæmt Wall Street Journal . Bankinn hefur hækkað vexti tvisvar það sem af er þessu ári, og standa þeir nú í tæpum 2%, en auk þess hefur hann gefið út að til standi að hækka vexti tvisvar í viðbót á árinu.

Ummæli Trump brutu í bága við langa hefð bandaríkjaforseta að tjá sig ekki um peningastefnu seðlabankans.

Trump sagði þó Jerome Powell, seðlabankastjóra, „mjög góðan mann“, og sagðist myndu leyfa bankanum að gera það sem hann teldi fyrir bestu. Hann kvartaði hinsvegar í sömu andrá yfir því að í hvert skipti sem efnahagurinn styrktist vildu menn fara að hækka vexti á ný, og sagðist „ekki yfir sig hrifinn“. Trump tilnefndi Powell í nóvember og hann tók formlega við embætti í febrúar síðastliðinn.

Greinendur telja þó Trump hafa gert reginmistök ef hann vill lægri stýrivexti, þar sem nú sé seðlabankinn í raun tilneyddur til að hækka vexti, til að forðast allan vafa um sjálfstæði bankans. Bankinn gæti því lent í mikilli klípu ef hann kemst síðar að þeirri niðurstöðu upp á eigin spýtur að hægja þurfi á hækkunum.

Forsvarsmenn seðlabankans hafa lengi talað um mikilvægi sjálfstæðis bankans frá pólitískum þrýstingi, en trúverðugleiki peningamálayfirvalda er afar mikilvægur. Ef fjárfestar trúa því ekki að bankinn muni taka óvinsælar, en nauðsynlegar, ákvarðanir þegar þess þarf, getur bankinn illa stjórnað væntingum markaðarins og missir þar með stjórn á verðbólguvæntingum og langtímavöxtum. Pólitískum þrýstingi frá Lyndon Johnson og Richard Nixon, fyrrverandi forsetum, er jafnan kennt um verðbólguskot 8. áratugarins þar í landi.