Donald Trump Bandaríkjaforseti og Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, hittast í Singapúr 12. júní. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá forseta Bandaríkjanna, sem kom heimsbyggðinni á óvart þegar hann þáði boð leiðtoga Norður-Kóreu um að funda.

Fram að því höfðu helstu samskipti leiðtoganna verið þau að þeir skiptust á móðgunum og hótunum. Í frétt á vef BBC kemur fram að fundurinn marki tímamót þar sem sitjandi forseti Bandaríkjanna hafi aldrei hitt leiðtoga Norður-Kóreu. Yfirlýsing Trump kom í kjölfar þess að hann tók á móti þremur Bandaríkjamönnum, sem höfðu verið í haldi Norður-Kóreu og var nýlega sleppt.