Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur rekið Rex Tillerson utanríkisráðherra og ráðið Mike Pompeo, forstjóra CIA, í hans stað að því er The Washington Post greinir frá. Mannaskiptin í utanríkisráðuneytinu marka töluverða breytingu á þjóðaröryggisteymi forsetans á sama tíma og samningaviðræður við Norður-Kóreu eru á viðkvæmu stigi.

Trump er sagður hafa óskað eftir afsögn Tillerson á föstudaginn síðastliðinn en sá síðarnefndi var þá á ferðalagi um Afríku. Umræður um brottrekstur Tillerson hafa staðið yfir um nokkurra mánaða skeið en hann á meðal annars að hafa kallað Trump fábjána eftir að sá síðarnefndi kallaði eftir því að kjarnorkuvopnabúr yrði áttfaldað.

Pompeo sem meðal annars var þingmaður Repúblikana í neðri deild bandaríska þingsins árin 2011-2017 mun taka við stöðu utanríkisráðherra en Gina Haspel aðstoðarforstjóri CIA, mun setjast í forstjórastól leyniþjónustunnar.