Donald Trump Bandaríkjaforseti segir stjórnvöld í Washington ekki vera undir neinni pressu um að ná viðskiptasamningi við Kína, en fregnir herma að viðræður um að hætta við þriðju lotu bandarískra tolla kunni að vera í uppsiglingu.

Yfirvöld í Kína eru sögð hafa tekið vel í viðræðuboðið og sagt löndin vera að ræða nánari útfærslu, samkvæmt frétt BBC um málið .

„Það er enginn þrýstingur á okkur að semja við Kína, þrýstingurinn er á þeim að semja við okkur,“ sagði Trump í tísti í gær. „Það er mikill uppgangur á mörkuðum okkar, þeirra eru í frjálsu falli.“

Samanlagt hafa Bandaríkin og Kína lagt tolla á um 5.600 milljarða króna virði af milliríkjaviðskiptum sín á milli það sem af er árinu, og neikvæðra áhrifa er þegar farið að gæta; fyrst og fremst hjá bílaframleiðendum.

Trump sagðist í síðustu viku geta lagt tolla á 23 þúsund milljarða til viðbótar „von bráðar“, og aðra 30 þúsund milljarða stuttu síðar. Yrði af báðum aðgerðum væru nýjir tollar komnir á svo til allan útflutning Kína til Bandaríkjanna.