Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur birt á twitter aðgangi sínum stutt myndband , sem sýnir hann ganga í skrokk á CNN. Um er að ræða myndband frá því árið 2007, þegar hann réðst á Vince McMahon, eigenda WWE wrestling vörumerkisins, í leiknu bardagaatriði, sem gert var í anda bardagakeppninnar.

En í stað andlitsins á Vince hefur nú verið sett merki CNN, en fréttastöðin og forsetinn hafa eldað grátt silfur undanfarið.

Sakaði hann fréttastöðina um falskan fréttaflutning, en þrír starfsmenn stöðvarinnar þurftu að láta af störfum þegar fréttastofan neyddist til að draga til baka fréttir um tengsl rússnesks fjárfestingarsjóðs við áhrifamenn í stjórn Trump, þegar í ljós koma að fréttin byggði ekki á nógu traustum heimildum.

Myndbandið sem birtist á Donald Trump spjallsíðu á heimasíðunni Reddit fyrir nokkrum dögum er aðeins nokkrar sekúndur að lengd, og tekið úr stærra atriði þar sem Trump og McMahon tókust á með því að láta tvo wrestling bardagakappa keppa fyrir sína hönd.

CNN hefur sakað forsetann um að hvetja til ofbeldis gagnvart fjölmiðlum með því að birta myndbandið, meðan aðrir hafa bent á að um sé að ræða leikið atriði áhorendum til skemmtunar, sem þarna hafi verið klippt til.