Donald Trump forseti Bandaríkjanna spáði því í morgun að samningar myndu nást við stjórnvöld í Kína um að ljúka tollastríði þjóðanna. Segir hann Kínverja vilja ná samkomulagi og að viðræður þjóðanna gangi vel.

Viðskipti Kína við umheiminn drógust mikið saman í desember, og var samdrátturinn sá mesti í tvö ár að því er BBC greinir frá. Þannig dróst útflutningur Kína saman um 4,4% í fyrra en innflutningur til landsins dróst saman um meira, eða 7,6%.

Viðskiptaafgangur Kína gagnvart Bandaríkjunum var samt sem áður í sögulegu hámarki á síðasta ári, en það er einmitt þessi mikli afgangur sem Trump hefur vísað til, þegar hann hefur rökstudd tollhækkun sína til að ná betri viðskiptasamningum við kommúnistaríkið.

„Okkur gengur vel með Kína,“ sagði Trump í Hvíta húsinu. „Ég held að við séum að ná samkomulagi. [...] Kína vill semja.“

Segir aðrar hindranir en tolla í vegi fyrir innflutningi til Kína

Trump hefur þó hótað því að auka tolla gagnvart Kína á vörur fyrir andvirði 200 milljarða dala til viðbótar í mars, en eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um stefndi í að tollar Bandaríkjanna gagnvart Kína yrðu að andvirði meira en sem nemur heildar innflutningi Kína frá Bandaríkjunum.

Segir Trump tollana nauðsynlega til að fá stjórnvöld í Kína til að tækla stuld á hugverkaréttum, tækniflutning og aðrar viðskiptahindranir en þær sem felast beint í tollum.

Viðskiptanefndir ríkjanna héldu fund í síðustu viku og hefur fjármálaráðherra Bandaríkjanna, Steven Mnuchin, sagt líklegt að varaforseti Kína, Liu He sem fer fyrir viðskiptasendinefnd ríkisins komi til Bandaríkjanna í lok mánaðarins.