Donald Trump, Bandaríkjaforseti, talaði fyrir því í tísti fyrr í dag að skylda skráðra fyrirtækja til að birta fjórðungsuppgjör – uppgjör á 3 mánaða fresti, samtals 4 á ári með ársreikningi og hálfsársuppgjöri – yrði afnumin, og aðeins gerð krafa um hálfsársuppgjör, samtals 2 uppgjör á ári.

Þá beindi hann því til verðbréfaeftirlitsins (SEC) að skoða möguleikann á slíkri reglubreytingu. Kveikjuna að hugmyndinni segir Trump hafa verið samtal við „nokkra af fremstu leiðtogum heims úr viðskiptalífinu“, hvar hann hafi spurt þá hvað hægt væri að gera til að gera viðskiptalíf Bandaríkjanna „enn betra“.

Hann sagði breytinguna myndu „auka sveigjanleika og spara pening“. Í öðru tísti í framhaldinu bætti hann við að lykillinn að atvinnusköpun væri hagstætt viðskiptaumhverfi. Gagnrýnendur fjórðungsuppgjörskerfisins segja það íþyngjandi, og að það dragi athygli fyrirtækja frá langtímamarkmiðum þeirra.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins afnam fjórðungsuppgjörsskyldu skráðra félaga árið 2013.