Verðbólgan hefur verið vaxandi það sem af er ári. Tólf mánaða verðbólga hefur farið úr því aið vera 1,8% í upphafi árs í að vera 3,4% og stefnir í að verða enn hærri. Þess skal geta að verbólgumarkmið Seðlabankans er 2,5%. Greining Íslandsbanka reiknar með að verðbólgan verði ríflega 5% í ár eða tvöfalt hærri en markmið Seðlabankans. Á sama tíma og verðbólga eykst er atvinnuleysi í sögulegu hámarki eða 7,8% á fyrsta ársfjórðungi.

Seðlabankinn
Seðlabankinn
© BIG (VB MYND/BIG)
Seðlabankinn á við trúverðugleikavandamál að stríða sem kemur sér illa núna. Frá því verðbólgumarkmið var tekið upp í mars árið 2001 hefur verðbólgan verið yfir markmiði 4/5 hluta tímans. Verðbólgan á þessum tíma hefur að meðaltali verði 6,1% og mest farið í 18,6%.

"Þegar trúverðugleiki verðbólgumarkmiðs Seðlabankans er lítill er hætta á því við núverandi aðstæður að aðgerðarleysi bankans til að berja niður aukna verðbólgu komi fram í því að verðbólguvæntingar til lengri tíma aukist og geti þannig aukið verðbólguna til lengri tíma litið með öllum þeim neikvæðu afleiðingum sem slík þróun hefur í för með sér. Skortur á þeirri traustu kjölfestu sem peningastefnan ætti að hafa í trúverðugu verðbólgumarkmiði takmarkar því verulega getu bankans til þess að örva efnahagslífið nú þegar verðbólga eykst á tíma slaka í hagkerfinu," segir í frétt Íslandsbanka.