*

mánudagur, 22. apríl 2019
Innlent 28. júlí 2018 12:45

Tryggingafélögin of bjartsýn

Greinandi Capacent segir afkomuviðvaranir tryggingafélaganna í takt við þróun hagkerfisins.

Höskuldur Marselíusarson
Snorri Jakobsson er forstöðumaður greiningardeildar Capacent.

Stærstu þrjú tryggingafélögin, Sjóvá-Almennar tryggingar, Tryggingamiðstöðin, TM, og Vátryggingafélag Íslands, VÍS, hafa á síðustu vikum öll gefið frá sér neikvæðar afkomuviðvaranir vegna komandi árshlutauppgjöra fyrir annan ársfjórðung.

Í sínum tveimur afkomuviðvörunum lækkaði VÍS væntingar sínar um hagnað um 1,1 milljarð, úr 792 milljónum í 300 milljóna tap. TM sagði í sinni afkomuviðvörun að í stað hálfs milljarðs króna hagnaðar fyrir ársfjórðunginn eins og rekstrarspá hafði gert ráð fyrir sjái félagið nú fram á að tap fyrir skatta verði um 200 milljónir króna.

Sjóvá gefur ekki upp hve mikið hafi dregið úr væntingum um hagnað, en segir ljóst að afkoma af skráðum hlutabréfum verði neikvæð sem og af fjárfestingarstarfsemi félagsins í heild. VÍS segir í seinni viðvörun sinni að tapið verði vegna óhagstæðrar þróunar á verðbréfamörkuðum síðustu dagana í júnímánuði. TM gerir hins vegar áfram ráð fyrir jákvæðri afkomu af fjárfestingartekjum, en samt um helmingi minni en upphaflega hafði verið gert ráð fyrir, það er 315 milljónir í stað 620 milljóna króna.

Spá áfram undir 100%

Fyrir utan hagnað af fjárfestingarstarfsemi er helsti mælikvarði á rekstur tryggingafélaga svokallað samsett hlutfall. Það mælir arðsemi vátryggingareksturs með því að leggja saman tjónakostnað, rekstrarkostnað og endurtryggingakostnað og skoða það sem hlutfall af iðgjöldum. Ef hlutfallið er yfir 100% skilar vátryggingareksturinn sjálfur ekki hagnaði.

Snorri Jakobsson, forstöðumaður greiningardeildar Capacent, segir tryggingafélögin heilt yfir hafa verið of bjartsýn í áætlunum sínum um samsett hlutföll fyrir árið. Í afkomuviðvörunum félaganna er vísað í stór brunatjón á árinu sem ástæðu hækkunar á hlutföllunum. VÍS hafði upphaflega spáð 95% samsettu hlutfalli fyrir árið, en gerir nú ráð fyrir 98%, TM hafði gert ráð fyrir 93% en sér nú fram á að það verði 96%, sem var einmitt spá Sjóvár fyrir árið þó nú stefni það í 98%.

„Okkur fannst samsetta hlutfallið of lágt í áætlunum tryggingafélaganna. Greinendur tryggingamarkaða hafa heldur viljað horfa á meðaltöl, sem breytast seigfljótandi, en koma ekki í stökkum,“ segir Snorri og vísar í aukin umsvif í þjóðfélaginu í uppsveiflu.

„Þá er alltaf meira tjón, en rannsóknir hafa sýnt að það er meira um tjón þegar það er uppsveifla og þar af leiðandi meiri hraði og hamagangur í öskjunni. Fólk er að drífa sig meira, það eru meiri framkvæmdir í gangi, meiri umferð og svo framvegis. Það virðist eins og stjórnendur tryggingafyrirtækjanna séu að horfa á að aukning tjóna komi í einhverjum stökkum, en ég held að flestir sem lesið hafa sér til um tryggingarekstur sjái að það er ákveðin tryggingasveifla yfir lengra tímabil. Það verður að skoða að minnsta kosti átta ár þegar rekstur tryggingafélaga er skoðaður, en árin 2014 og 2015 voru líka sögð slæm. Þá spyr maður sig hvort árin 2016 og 2017 hafi ekki bara verið óvenjulega góð.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.

25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim