Gengi hlutabréfa Vátryggingafélags Íslands, VÍS, hafa hækkað um 3,64% þegar þetta er ritað og er velta með bréf félagsins tæplega 100 milljónir. Í gær gaf VÍS frá sér afkomutilkynningu þar sem greint var frá því að hagnaður VÍS yrði talsverður á fyrri helmingi þessa árs og að um afgerandi frávik væri að ræða, en í tilkynningunni kom fram að annar ársfjórðungur hafi verið verulega tjónaléttur.

TM hefur einnig hækkað í Kauphöllinni  eða um 3,53% í 86 milljón króna viðskiptum það sem af er degi, en ekki er ómögulegt að afkomutilkynning VÍS hafi spilað þar inn í. Hlutabréf Sjóvá hafa einnig hækkað í verði, en þó minna en gengi hlutabréfa TM og VÍS. Gengi bréfa Vodafone hefur sömuleiðis hækkað það sem af er degi, eða um 2,83% í 255 milljón króna viðskiptum. Gengi hlutabréfa Nýherja hefur lækkað um 1,39% í tiltölulega litlum viðskiptum.