Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq á Íslandi hækkaði um 0,64% í 5,4 milljarða viðskiptum dagsins, og stendur hún nú í 1.880,24 stigum.

Mest hækkun var á gengi bréfa VÍS, eða um 4,74% í 380 milljóna króna viðskiptum, og fór gengið upp í 12,15 krónur. Næst mest var hækkunin á gengi bréfa Sjóvá, eða fyrir 1,53 í 511 milljóna króna viðskiptum, og er gengi bréfanna nú 16,60 krónur.

Þriðja tryggingarfélagið, TM hækkaði einnig töluvert, eða um 1,37%, og var það ásamt Arion banka sem hækkaði jafnmikið í þriðja til fjórða sæti yfir mestu hækkun dagsins.

Viðskiptin með bréf TM námu 266 milljónum króna, og fór gengið í 29,70 krónur. Viðskiptin með bréf Arion banka námu 353 milljónum króna og er verð bréfa í bankanum nú 74 krónur.

Mest lækkun var svo á gengi bréfa Icelandair, eða 3,70% í 148 milljón króna viðskiptum, og fóru þau niður í 8,85 krónur. Einungis tvö félög lækkuðu í verði í kauphöllinni í dag, en hitt var Síminn sem lækkaði um 1,02% í 151 milljóna króna viðskiptum, niður í 3,89 krónur.

Mestu viðskiptin voru svo eftir sem áður með bréf Marel, eða fyrir 2,2 milljarða, en það þýðir að rétt rúmlega 40% allra viðskipta í kauphöllinni í dag voru með bréf í félaginu. Bréfin hækkuðu um 1,30% og fóru upp fyrir 500 krónurnar, eða í 505 krónur.

Næst mestu viðskiptin voru svo með bréf Reita, eða fyrir 592 milljónir króna, en bréf félagsins hækkuðu um 0,92% í viðskiptunum og fóru upp í 8,76 krónur.