Samkvæmt drögum að fjárlagafrumvarpi sem lagt var fyrir Alþingi tveimur dögum áður en Björt framtíð og síðan Viðreisn ákváðu að slíta ríkisstjórnarsamstarfinu hefði tryggingagjaldið átt að skila liðlega 99 milljörðum króna í ríkissjóð á æsta ári. Í ár var gert ráð fyrir að það skili um 90 milljörðum

Er um að ræða þriðjungsaukningu í krónum talið á undanförnum fjórum árum, þrátt fyrir að tryggingagjaldið hafi verið lækkað um 0,94 prósentustig að því er Fréttablaðið greinir frá. Ingólfur Bender aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins segir að tryggingagjaldið hafi verið hækkað til þess að standa straum af auknu atvinnuleysi í kjölfar hrunsins, en nú er það í sögulegu lágmarki.

„Gjaldið hefur ekki fylgt þróun atvinnuleysis til lækkunar,“ segir Ingólfur. „Þetta var hugsað sem tímabundin aðgerð. Það myndaðist hins vegar mikil tregða hjá ríkisstjórninni að lækka gjaldið aftur þegar atvinnuleysi minnkaði.“ Ingólfur segir að nú þegar teikn væru á lofti um að slakna sé farið á spennunni í hagkerfinu myndi lækkun gjaldsins auka eftirspurn eftir vinnuafli.

„Nú er ágætis tími til þess að lækka gjaldið og efna það loforð sem var gefið fyrir mörgum misserum,“ segir Ingólfur sem segir að gjaldið hefði átt að lækka á þessu ári til að mæta miklum kostnaði við jöfnun lífeyrisréttinda og launahækkanir sem samið hafi verið um.

„Það voru mikil vonbrigði þar sem ljóst var að kjarasamningar myndu ganga mjög nærri getu fyrirtækja og að mótvægisaðgerðir stjórnvalda væru nauðsynlegar til að kostnaðaraukinn færi ekki að stórum hluta út í verðlag.“