Kjarasamningar sem undirritaðir voru í vor munu gera það að verkum að tekjur ríkissjóðs af tryggingasjóðsgjaldi hækka um fimm milljarða króna. Þetta segir Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, í samtali við Fréttablaðið .

Tryggingagjald er 7,49% af öllum launagreiðslum í landinu og segir Almar að í fjárlögum hafi verið reiknað með að tryggingagjöld myndu skila um 78 milljörðum króna til ríkissjóðs. Niðurstaða kjarasamninga þýði hins vegar að þessi tala muni hækka.

Almar segir að Samtök iðnaðarins vilji sjá tryggingagjald lækka um minnst eitt prósentustig í fjárlögum fyrir árið 2016. „Fjármálaráðherra er alveg fullkunnugt um það hvar við stöndum í þessu,“ segir hann.