Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq Iceland hefur lækkað um 0,16% í tæplega milljarðs viðskiptum í dag. Fór hún niður í 1.687,72 stig. Aðalsvísitala skuldabréfa hækkaði hins vegar nokkuð eða um 0,33% í 5,8 milljarða viðskiptum og fór hún upp í 1.349,90 stig.

TM hækkaði einna mest

Gengi bréfa Össurar hækkaði mest, eða um 1,75% en í litlum viðskiptum og er gengi bréfanna nú 465,00 krónur. Næst mest hækkun var á gengi bréfa TM, eða um 0,61% í 47 milljón króna viðskiptum og standa bréfin nú í 33,05 krónum.

Fjarskipti, móðurfélag Vodafone, lækkaði hins vegar mest, eða um 2,12% í tæplega 81 milljón króna viðskiptum og fæst nú hvert bréf félagsins á 62,25 krónur. Næst mest lækkun var á gengi Skeljungs, eða um 0,84% í 26 milljón króna viðskiptum og fóru gengi bréfa félagsins niður í 7,07 krónur.

Mest viðskipti voru hins vegar með bréf Eimskipafélagsins, eða fyrir 203 milljónir króna, en bréfin lækkuðu um 0,37% niður í 269,00 krónur.

Vísitölur Gamma

Hlutabréfavísitala Gamma lækkaði um 0,2% í dag í 1 milljarða viðskiptum.

Skuldabréfavísitala Gamma hækkaði um 0,3% í dag í 3,6 milljarða viðskiptum. Verðtryggði hluti vísitölunnar hækkaði um 0,5% í 1,3 milljarða viðskiptum og óverðtryggði hluti vísitölunnar lækkaði lítillega í 2,3 milljarða viðskiptum.