Verð á hlutabréfum í tryggingafélögunum þremur Sjóvá, VÍS og TM hefur hækkað í viðskiptum dagsins. Uppgjör frá Vátryggingafélagi Íslands er væntanlegt á morgun.

Hlutabréfaverð í Sjóvá hækkaði um 1,59% í 288 milljóna króna viðskiptum í dag. VÍS hækkaði um 1,35% í 69 milljóna króna viðskiptum og verð á bréfum í Tryggingamiðstöðinni hækkaði um 0,79% í 32 milljóna króna viðskiptum.

Heildarvelta í Kauphöllinni það sem af er degi hefur verið 1.708 milljónir króna en mest velta var með bréf í Skeljungi sem hefur hækkað um 6,75% í 497 milljóna króna viðskiptum það sem af er degi.

Einu félögin sem lækkað hafa í viðskiptum dagsins eru Hagar um 0,65% í 63 milljóna króna viðskiptum og Icelandair um 0,43% í 41 milljóna króna viðskiptum.