Ríkisstjórnin hefur samþykkt að fela fjármála- og efnahagsmálaráðherra í samráði heilbrigðisráðherra að tryggja aukið fjármagn til lyfjamála til innleiðingar nýrra lyfja á þessu ári.

Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra fundaði með formanni lyfjagreiðslunefndar, forstjóra Landspítala og fulltrúa Sjúkratrygginga í gær. Þar bentu þessir aðilar á að lyfjamálum væri þröngur stakkur skorinn í fjárlögum ársins og að þau gæfu ekkert svigrúm til innleiðingar nýrra lyfja, að því er kemur fram í frétt velferðarráðuneytisins .

„Í minnisblaði heilbrigðisráðherra til ríkisstjórnarinnar kemur fram að miðað við fjárheimildir þessa árs vanti töluverða fjármuni til lyfjamála m.a. varðandi innleiðingu nýrra lyfja. Á grundvelli þessa samþykkti ríkisstjórnin að fela fjármála- og efnahagsráðherra í samráði við heilbrigðisráðherra að tryggja aukið fé til málaflokksins og verður verkefni þeirra m.a. að leggja mat á fjárþörfina og umfang vandans,“ er að lokum tekið fram í fréttinni.