Tryggvi Björn Davíðsson, framkvæmdastjóri Markaða hjá Íslandsbanka, Elín Jónsdóttir, framkvæmdastjóri VÍB og Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur hjá Greiningu Íslandsbanka eru meðal þeirra 20 starfsmanna sem hafa látið af störfum hjá bankanum.

Starfslokin eru samhliða skipulagsbreytingum sem bankinn hefur ráðist í eins og Viðskiptablaðið hefur sagt frá , en þær felast í að Fyrirtækjasvið og Markaðir hafa verið sameinuð í Fyrirtæki og fjárfesta, og VÍB verður ekki lengur til í núverandi mynd heldur fer inn á tekjusvið að því er Edda Hermannsdóttir, samskiptastjóri Íslandsbanka greinir frá.

Jón Bjarki Bentsson hefur tekið við sem aðalhagfræðingur og mun hann leiða greiningarstarf bankans, sem heldur áfram með breyttum áherslum.

Þrír yfirmenn sem eru hættir

Tryggvi Björn Davíðsson hefur starfað sem framkvæmdastjóri Markaða hjá Íslandsbanka síðan í september 2011, en áður starfaði hann hjá Barclays Capital í Lundúnum, en þar áður hjá Íslandsbanka-FBA og hjá Seðlabanka Íslands. Einnig starfaði hann um tíma sem viðskiptafulltrúi í sendiráði Íslands í París.

Elín Jónsdóttir , hefur verið framkvæmdastjóri VÍB frá því í júlí 2014, en hún var þar áður forstjóri Bankasýslu Ríkisins. Einnig hefur hún verið framkvæmdastjóri verðbréfafyrirtækisins Arev og sem lögfræðingur hjá Fjármálaeftirlitinu.

Ingólfur Bender hefur verið aðalhagfræðingur og yfirmaður Greiningar Íslandsbanka frá því árið 2000 en árið 1996 til 2000 var hann hagfræðingur Samtaka iðnaðarins.

Edda segir þessar breytingar fyrst og fremst vera vegna tækni- og reglugerðarbreytinga en einnig vegna hagræðis. „Með því að skipta tekjusviðunum eftir viðskiptavinum, í einstaklinga, lítil og meðalstór fyrirtæki og svo stóra fjárfesta, teljum við okkur hafa betri leið til að þjónusta viðskiptavinina þannig að þeir fái alla þjónustuna á einum stað,“ segir Edda um nýtt skipurit bankans.

Nýtt skipurit Íslandsbanka
Nýtt skipurit Íslandsbanka