Alex Tsipras forsætisráðherra Grikklands sagði í dag að ef samningar við lánadrottna um björgunarpakka verði ekki í samræmi við kosningaloforð Syriza flokksins væri möguleiki á að beina samningnum í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þá sagði hann jafnframt að hann búist við því að samningar náist fyrir 9. maí næstkomandi. Þetta sagði hann í sjónvarpsviðtali í gærkvöldi.

Náist samningar við lánadrottna fær Grikkland um 7,2 milljarða evra í fjárhagsaðstoð og möguleiki opnast fyrir annan björgunarpakka síðar á árinu frá Alþjóðagjaldeyrissjóðinum og Evrópusambandinu.

Samkvæmt þýska blaðinu Bild hringdi Tsipras í Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, sunnudaginn síðastliðinni til að láta hana vita að gríska ríkistjórnin væri orðin uppiskroppa með fé. Þýsk stjórnvöld hafa aðeins staðfest að símtalið átti sér stað, en hafa ekki viljað tjá sig um efni þess.

Nánar er greint frá málinu á vef Financial Times .