Einn af síðustu draugum íslenska efnahagshrunsins var endanlega kveðinn niður í síðasta mánuði er ríkissjóður greiddi að fullu upp hið svokallaða Seðlabankabréf, 270 milljarða króna skuldabréf sem íslenska ríkið gaf út í árslok 2008 í skiptum fyrir veðlán Seðlabankans í hinum alræmdu ástarbréfum föllnu bankanna. Tilgangur skuldabréfsins var að koma í veg fyrir að eigið fé Seðlabankans yrði neikvætt í kjölfar þess að veð hans gegn hundraða milljarða lánum til bankanna misstu stóran hluta virðis síns í kjölfar hrunsins. Lán Seðlabankans til bankanna í formi ástarbréfanna voru afar umdeild og skuldabréf ríkissjóðs til bjargar bankanum vakti einnig umtal. Hér má lesa umfjöllun um ástarbréfin , en að neðan er haldið áfram upp úr sömu grein.

Seðlabankabréfið gefið út

Svo fór að bankarnir hrundu á endanum haustið 2008 og þá var ljóst að ástarbréfin væru þungur baggi á efnahagsreikningi Seðlabankans, enda yrðu þau aldrei greidd til baka að fullu. Í því ljósi þurfti að færa virði þeirra verulega niður með þeim afleiðingum að eigið fé Seðlabankans yrði neikvætt. Til að koma í veg fyrir að slíkt myndi gerast komust Seðlabankinn og ríkissjóð- ur að samkomulagi í árslok 2008 um að ríkissjóður skyldi yfirtaka veðkröfurnar vegna ástarbréfanna, sem þá námu alls 345 milljörðum króna.

Á móti veðlánunum gaf ríkissjóður út verðtryggt skuldabréf að upphæð 270 milljarðar króna sem bar 2,5% ársvexti og var á gjalddaga eftir fimm ár, þann 1. janúar 2014. Af heildarfjárhæðinni voru trygg veð metin um 51 milljarður og óvissar kröfur á um 44 milljarða og ríkissjóður afskrifaði því strax 175 milljarða af þessum veðlánum sem gjaldfærðir voru í ríkisreikningi 2008. 75 milljarða króna mismunurinn af nafnverði lánanna og upphæð skuldabréfsins var færður til gjalda hjá Seðlabankanum sem útlánatöp í rekstrarreikningi. Þarna var því strax búið að bókfæra 250 milljarða króna tap vegna ástarbréfanna.

Samkvæmt skýrslu Ásgeirs Jónssonar og Hersis Sigurgeirssonar um kostnað og ábata af endurreisninni reyndist tapið að öllum líkindum vera um 200 milljarðar króna þegar upp var staðið, en nákvæm tala fer eftir þeim endurheimtum sem eiga eftir að nást. Með útgáfu Seðlabankabréfsins tók ríkissjóður á sig stóran hluta tapsins af ástarbréfinu í stað Seðlabankans, þótt vissulega hafi tapið á endanum lent á sömu aðilum – íslenskum almenningi.

Ekki fór mikið fyrir útgáfu bréfsins, því var bætt inn í aukafjárlög ársins 2008 að fenginni tillögu hjá fjárlaganefnd í desember það ár og í janúar 2009 var birt stutt fréttatilkynning á vef fjármálaráðuneytisins um yfirtöku veðlánanna. Ekki fór mikið fyrir umræðu um bréfið í fjölmiðlum fyrst um sinn, enda var mikið að gerast á þessum tíma. Með tíð og tíma var þó fjallað meira um Seðlabankabréfið og útgáfu ástarbréfanna og voru viðbrögðin almennt afar neikvæð.

Borgað „til baka“

Í árslok 2009 var ákveðið að Seðlabankinn myndi aftur yfirtaka kröfurnar sem ríkissjóður hafði keypt ári áður ásamt öðrum kröfum sem hann hafði leyst til sín vegna bankahrunsins. Kröfurnar vegna ástarbréfanna voru metnar á 93 milljarða króna og hinar veðlánakröfurnar voru metnar á 41 milljarð. Andvirði viðskiptanna var notað til að lækka höfuðstól skuldabréfsins um 134 milljarða. Ríkissjóður seldi með öðrum orðum kröfurnar sem hann hafði keypt á 270 milljarða króna aftur til Seðlabankans fyrir 93 milljarða. Munurinn á kaupverðinu og söluverðinu var 177 milljarðar króna auk allra þeirra vaxta og verðbóta sem ríkissjóður átti eftir að greiða af skuldabréfinu. Má líta á þá upphæð sem beina fjárinnspýtingu ríkisins til Seðlabankans.

Ástæðan fyrir því að ríkið seldi kröfurnar aftur til Seðlabankans var sú að það var talið óhentugt að umsýsla krafna ríkis og Seðlabanka á hendur fjármálafyrirtækjum væri á tveimur stöðum. Þetta kom fram í svari Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, við fyrirspurn Elsu Láru Arnardóttur um vaxtagjöld ríkisins vegna lána til bjargar fjármálakerfinu í nóvember 2014. Kröfurnar voru síðan settar inn í nýtt dótturfélag Íslands, Eignasafn Seðlabanka Íslands, sem varð um leið einn af stærstu kröfuhöfum föllnu bankanna ásamt vogunarsjóðum og fleiri aðilum. Í svari Bjarna kom jafnframt fram að á þeim tíma væru áfallnir vextir og verðbætur vegna skuldabréfsins samtals 80 milljarðar króna.

Ekkert var greitt inn á höfuðstól skuldabréfsins 2010 og 2011 en árið 2012 voru greiddir 7,4 milljarðar og árið 2013 voru greiddir 4,8 milljarðar. Þessar greiðslur dugðu skammt til að sporna við verðbótum og vöxtum, enda var höfuðstóllinn einungis einum milljarði lægri í árslok 2013 en hann var í ársbyrjun 2012.

Áður en til gjalddaga bréfsins kom gerðu ríkissjóður og Seðlabankinn samkomulag um breytingu á skuldabréfinu. Gjalddaginn var færður aftur um eitt ár, frá 1. janúar 2014 til 1. janúar 2015, og þá var ákvæðum bréfsins breytt. Verðbætur af skuldabréfinu féllu niður og bréfið var látið bera óverðtryggða vexti sem miðuðust við vexti af viðskiptareikningum fjármálafyrirtækja hjá Seðlabankanum. Í upphaflegum fjárlögum var lagt upp með að lækka vaxtakostnað ríkissjóðs af bréfinu um 10,7 milljarða króna með því að gera það vaxtalaust. Þá hafði ríkissjóður þegar greitt 72,5 milljarða í uppsafnaða vexti og verðbætur til bankans af bréfinu. Fallið var frá þeim áformum og samið um ákvæðin að ofan, þannig að vaxtakostnaður ríkisins lækkaði því samtals um 2,2 milljarða króna miðað við fyrri skilmála.

Árið 2014 var höfuðstóll bréfsins lækkaður um 26 milljarða króna og það var framlengt til 29 ára. Bréfið átti að greiða niður með jöfnum fimm milljarða króna árlegum afborgunum. Ríkissjóður hafði hins vegar réttinn til að greiða inn á bréfið að vild og gerði það. Í árslok 2015 greiddi sjóðurinn tæpa 50 milljarða inn á bréfið, en afborguninni var mætt með lækkun á sjóðsstöðu ríkissjóðs hjá Seðlabankanum. Þá var áformað að greiða bréfið að fullu á árinu 2016. Þau áform gengu ekki alveg upp, en hins vegar greiddi ríkissjóður alls 61,5 milljarða króna inn á bréfið árið 2016 og þá stóðu einungis 28,8 milljarðar eftir. Bréfið var síðan fyllilega greitt upp í síðasta mánuði, en þá nam staða þess 18,5 milljörðum króna