Norska laxeldisfyrirtækið Salmar, sem á ráðandi eignarhlut í íslenska laxeldisfyrirtækinu Arnarlax, gæti ásamt að minnsta kosti 21 öðru norsku fyrirtæki átt yfir höfði sér rannsókn vegna laxasmyglsins til Kína sem Fiskifréttir fjölluðu um í síðustu viku.

Vaxandi kröfur eru í Noregi um að málið verði rannsakað í þaula. Kínversk stjórnvöld komu upp um málið og hafa handtekið um 70 manns, þar á meðal norskan ríkisborgara, konu að nafni Yinmin Dong, sem hefur verið lykilmanneskja í útflutningi Salmars til Asíu.

Tina Søreide, helsti fræðingur Noregs í spillingarmálum, segir vel hægt að draga forsvarsmenn þeirra fyrirtækja sem selt hafa lax til Víetnam til refsiábyrgðar í Noregi. Þau séu meðsek um bæði spillingu og mannréttindabrot.

„Samkvæmt OECD-samningi um mútugreiðslur í útlöndum sækir Noregur til saka þá sem greitt hafa mútur í útlöndum,“ er haft eftir henni í Fiskeribladet.

Ólíðandi
„Sú staðreynd að yfirvöld í Víetnam eiga erfitt með að fara eftir eigin reglum réttlætir ekki það vinnulag að menn loki augunum og hagnist á lögbrotum samstarfsaðilanna – eins og smygli, skipulagðri glæpastarfsemi og spillingu,“ segir Søreide ennfremur. „Það segir sig sjálft að siðferðilega er ólíðandi að ýta undir glæpastarfsemi og brjóta gegn landslögum til að tryggja sölu.“

Þess má geta að fyrir Alþingi liggur nú frumvarp dómsmálaráðherra um breytingar á lögum til að tryggja að þessi sami samningur Efnahags- og framfarastofnunarinnar frá árinu 1997 um „baráttu gegn mútugreiðslum til erlendra opinberra starfsmanna í alþjóðlegum viðskiptum“ verði að fullu virkur hér á landi.

Norskir fjölmiðlar hafa fjallað ítarlega um málið, einkum Fiskeribladet og Dagens Næringsliv.

Salmar fær harða gagnrýni hjá leiðarahöfundi Fiskeribladet, ekki bara fyrir smyglið sjálft heldur ekki síður fyrir að reyna að gera Yinmin Dong að blóraböggli. „Þetta sýnir því miður hve litla þýðingu siðferðið hefur,“ segir í leiðaranum. Upp um þetta hafi komist vegna vandaðrar blaðamennsku af hálfu bæði Fiskeribladet og Dagens Næringsliv.

Fullyrt er að fjölmörg önnur norsk fyrirtæki hljóti að hafa vitað af því hvernig kaupin gerast þarna á Eyrinni. Per Sandberg sjávarútvegsráðherra er sömuleiðis sagður hljóta að hafa gert sér grein fyrir ástandinu.

„Við reiknum með því að ákæruvaldið taki málið tafarlaust til skoðunar,“ segir í leiðaranum. „Það má ekki líðast að menn sætti sig við spillingu og mannréttindabrot.“

Mikil aukning síðan 2015
Smygl á laxi til Kína í gegnum Víetnam er talið hafa staðið yfir allt frá árinu 2010 þegar Kínverjar tóku það óstinnt upp að norska Nóbelsnefndin skyldi veita kínverskum andófsmanni friðarverðlaun Nóbels. Það var tók samt ekki að aukast að neinu ráði fyrr en 2015, að öllum líkindum til að komast hjá því að greiða 22 prósenta gjöld sem Kínverjar hafa lagt á innfluttan lax.

Á síðasta ári fluttu Norðmenn 29 þúsund tonn af laxi til Kína. Líklegt þykir að um það bil 90 prósent af þeim útflutningi hafi endað í Kína, og þá fyrir tilstilli bæði víetnamskra og kínverskra mafíuhópa.

Fátt hefur verið um svör þegar norskir ráðamenn eru spurðir út í þetta.

Ruth Grung, þingkona Verkamannaflokksins, tók málið upp á þingi og óskar eftir svörum frá Per Sandberg sjávarútvegsráðherra.

„Upp á síðkastið hafa fjölmiðlar lýst ljótum spillingarmálum og mafíutilburðum sérstaklega er varðar útflutning til Víetnams og Kína,“ segir Grung í fyrirspurn sinni. „Hvað gerir ráðherrann til að koma í veg fyrir að útflutningur sjávarafurða verði ofurseldur spillingu og mannréttindabrotum í útlöndum?“

Fiskeribladet hefur einnig spurt Norska sjávarafurðaráðið, sem styður við útflutning sjávarafurða, og þar segjast menn ekki hafa veitt útflutningi til Víetnam sérstaka athygli.

„Sjávarafurðaráðið gegnir engu eftirlitshlutverki gagnvart sjávarafurðum,“ segir í svari frá Renate Larsen, yfirmanni hjá ráðinu. „Hlutverk okkar er að auka verðmæti norskra sjávarafurða með sameiginlegri markaðssetningu.“

Fiskeribladet upplýsir ennfremur að 22 norsk fyrirtæki, hið minnsta, geti verið með beinum eða óbeinum hætti flækt í laxasmyglið til Víetnam. Norska Matvælaeftirlitið hefur tekið saman lista yfir öll fyrirtæki sem hafa leyfi til útflutnings á fiski til Víetnam, en sem fyrr segir hafa meira en 90 prósent útflutningsins þangað endað í Kína með ólöglegum hætti.