Íslenska hönnunarfyrirtækið Tulipop hefur gert samning við sjóðinn Frumtak og núverandi hluthafa, Þorberg ehf., sem er félag í eigu Dóru Bjargar Marínósdóttur, um að leggja fyrirtækinu til tæplega 250 milljónir króna í nýtt hlutafé. Hlutafjáraukningin kemur til með að styðja við frekari vöxt fyrirtækisins, sem hannar og framleiðir breiða línu af gjafavörum fyrir börn á öllum aldri.

Fyrirtækið hefur til þessa selt vörur sínar til 120 verslana í 14 löndum, en nýverið keypti bandaríski leikfangaframleiðandinn Toynami réttinn til framleiðslu á Tulipop leikföngum sem koma á markað síðar á árinu.

Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri og einn af stofnendum Tulipop, segir hlutafjáraukninguna gera fyrirtækinu kleift að vanda vel til verka og finna eins sterka samstarfsaðila og völ er á fyrir áframhaldandi vöruþróun, en börn vilja ólm fá að kynnast persónunum úr Tulipop-heiminum frekar.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð .