*

þriðjudagur, 19. febrúar 2019
Innlent 18. júlí 2018 09:47

Tulipop gerir 700 milljóna samning

Íslenska fyrirtækið Tulipop hefur gert 700 milljón króna samning við alþjóðlega fyrirtækið Zodiak Kids um framleiðslu á sjónvarpsþáttaröð.

Ritstjórn
Helga Árnadóttir og Signý Kolbeinsdóttir stofnuðu Tulipop árið 2010.
Haraldur Guðjónsson

Tulipop hefur samið við alþjóðlega stórfyrirtækið Zodiak Kids um framleiðslu á stórri sjónvarpsþáttaröð sem byggð verður á hinum íslenska Tulipop ævintýraheimi og persónum hans. Um er að ræða 52 þátta seríu af 11 mínútna þáttum og er áætlaður framleiðslukostnaður um 700 milljónir króna. Zodiak Kids mun framleiða seríuna í samstarfi við Tulipop auk þess að sjá um alþjóðlega sölu og dreifingu.

Tulipop heimurinn var skapaður af íslenska teiknaranum og vöruhönnuðinum Signýju Kolbeinsdóttur, sem stofnaði fyrirtæki með sama nafni ásamt Helgu Árnadóttur árið 2010.

Helga segir vinnu við þróun seríunnar hafa hafist fyrir 18 mánuðum. Verkefnið var kynnt á teiknimyndahátíðum síðasta haust og í kjölfarið hófust viðræður við aðila sem lýstu yfir áhuga á samstarfi.

„Eftir að hafa rætt við marga mögulega meðframleiðendur þá leist okkur best á Zodiak. Fyrirtækið deilir okkar sýn á hvernig sjónvarpsserían á að vera auk þess sem það er traust og stórt fyrirtæki sem hefur burði til búa til hágæðasjónvarpsseríu og koma henni í sýningu um allan heim.“ Segir Helga.

Formleg sala mun hefjast á MIP hátíðinni í Cannes í október og ef allt gengur að óskum fer svo framleiðsla af stað fyrir lok næsta árs og serían í sýningar fyrir lok árs 2020.

Jean-Philippe Randisi, forstjóri Zodiak Kids, segist mjög ánægður með samninginn og hlakkar til samstarfsins við Tulipop. ,,Við erum mjög spennt fyrir að vinna með Tulipop að þessari teiknimyndaseríu sem fangar íslenskan kraft og hugvit og taka áfram til sjónvarpsáhorfenda um allan heim. Við teljum að tenging Tulipop við náttúruna og íslenska arfleifð muni vekja áhuga barna og ungmenna hvar sem er í heiminum,” segir hann.

Samhliða þróun þessar stóru sjónvarpsseríu hefur Tulipop framleitt tíu stutta 2,5 mínútna teiknimyndaþætti sem fóru nýverið í sýningar á RÚV. Ólafur Darri Ólafsson leikari ljær einni aðalpersónu þáttanna, Fred, rödd sína, bæði í enskri og íslenskri útgáfu þáttaraðarinnar, en meðal annarra leikara sem tala fyrir persónurnar á íslensku má nefna Sölku Sól, Ólafíu Hrönn og Ladda.

Stikkorð: Tulipop